Það kennir margra grasa í sjómannadagsblaði Fiskifrétta sem kom út í dag.
Meðal efnis:
54 ár á sjónum
Viðtal við Gísla V. Jónsson sem er í hópi fengsælustu skipstjóra landsins auk þess sem ferill hans hefur til þessa verið einkar farsæll. Hann hefur nú verið til sjós í 54 ár. Hjá Vísi í Grindavík hefur hann verið síðastliðin 23 ár og stýrt línuskipinu Páli Jónssyni GK frá árinu 2001.
Gleymdur afreksmaður
Jakob F. Ásgeirsson, sagnfræðingur og rithöfundur segir frá Jóni Gunnarssyni. Fáir menn hafa markað jafndjúp spor í atvinnusögu Íslendinga á tuttugustu öld. Hann byggði upp nánast af eigin rammleik stærsta fyrirtæki Íslendinga í útlöndum, Coldwater Seafood Corporation, dótturfyrirtæki Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum.
Á hjarðeldi á þorski rétt á sér?
Grein eftir Björn Björnsson, sérfræðing á Hafrannsóknastofnun.
Skipstjóri ríflega tvítugur
Helgi Kristjánsson, sjómaður og einn aðstandenda tæknifyrirtækisins Knarr, segir frá því hvernig hann varð skipstjóri á togaranum Karlsefni, þá rétt rúmlega tvítugur. Hann tók einnig þátt í því að byggja upp fyrirtækið Naust Marine.
Sigga Vigga sextug
Nú er 60 ár síðan Sigga Vigga og meðreiðarsveinar hennar birtust fyrst lesendum – en hún var sköpunarverk Gísla J. Ástþórssonar blaðamanns á Alþýðublaðinu og Morgunblaðinu.
Sjókonur í rúm 100 ár
Margaret E. Wilson mannfræðingur í viðtali sem hefur rannsakað hlut kvenna um borð í íslenskum fiskveiðiskipum í gegnum söguna.
Kútter Sigurfari
Uppi eru hugmyndir um að farga Kútter Sigurfara, einu best þekkta skipi íslenska flotans. Skipið er ónýtt og ekki talið mögulegt að varðveita það. Saga skipsins er hins vegar stórmerkileg og er sögð í blaðinu.
Lærði kjólasaum en stjórnar krana
Snædís Ylfa Ólafsdóttir, einn af nokkrum kranastjórum Eimskips í Sundahöfn. Hún segir að hlutirnir séu sem betur fer að breytast og hópur kvenna starfi til að mynda á bílaflota, lyfturum og öðrum vinnuvélum hjá Eimskip. Starfsemi félagsins og forstjórinn í viðtali – ný skip verða afhent von bráðar.
Fjölfræðingurinn Bjarni Sæmundsson
Þessi fyrsti fiskifræðingur landsins kom víða við og honum var ekkert óviðkomandi við hafrannsóknir.
Sjómannadagskrossgáta og margt fleira