Matvælastofnun hefur til meðferðar sjö umsóknir um ný rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi, þrjár á Austfjörðum og fjórar á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu.
Umsóknirnar sjö eru komnar mislangt á leið að því er segir í svari deildarstjóra fiskeldisdeildar Matvælastofnunar til Viðskiptablaðsins.
„Tillaga að rekstrarleyfi Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi var auglýst í byrjun júní og er verið að vinna að því að svara athugasemdum. Tvær umsóknir, ein í Seyðisfirði og ein í Ísafjarðardjúpi, eiga þá eftir að fara í gegnum áhættumat um siglingaöryggi,“ segir á vb.is þar sem nánar er fjallað um málið.
„Matvælastofnun er að skoða hvort fjórar af þessum sjö umsóknum um ný rekstrarleyfi til sjókvíaeldis falli utan skurðarpunkts laganna 19. júlí 2019 eða ekki. Falli þær utan skurðpunkts verður þeim umsóknum hafnað. Ef einhver umsókn eru hins vegar innan skurðpunkts þá verður sú umsókn afgreidd,“ vitnar Viðskiptablaðið í fyrrgreint svar.
Auk umsókna um ný rekstrarleyfi er stofnunin sögð vera með til meðferðar átta umsóknir um breytingar á rekstrarleyfum til sjókvíaeldis.