HB Grandi fær þrjá nýja ferskfisktogara afhenta frá skipasmíðastöðinni Celiktrans í Istanbul í Tyrklandi á þessu ári. Sá fyrsti, Engey RE, kom til landsins í síðustu viku en hinir tveir koma í júní og desember. Heildarfjárfesting í smíði skipanna þriggja er rétt rúmir 7 milljarðar króna.

„Þetta eru mikil tímamót í sögu HB Granda og ég myndi líka segja tímamót í togaraútgerð landsmanna,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í samtali við Fiskifréttir. Hann segir einnig að hagstætt sé að láta smíða skip í dag. Verkefnaþurrð sé hjá skipasmíðastöðvum og lánsfjármagn ódýrt.

Margar nýjungar eru í Engey RE. Þessa dagana vinnur Skaginn3X að því að setja byltingarkenndan vinnslu- og lestarbúnað um borð. Lestin er sjálfvirk og Engey verður fyrsti ferskfisktogari í heiminum sem verður með mannlausa fiskilest. Vinnsla á millidekki byggist á undirkælingu, þar sem fiskurinn er kældur niður að einni gráðu án þess að frjósa. Þá hefur nýtt stefnislag á skipinu vakið athygli en það stóðst prófið á heimsiglingunni.

Sjá nánar ítarlega umfjöllun um Engey RE í nýjustu Fiskifréttum.