Út er komið ritið Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2015 þar sem hagfræðingar Íslenska sjávarklasans fara yfir þróun sjávarútvegsins og tengdra greina á árinu 2015 í efnahagslegu samhengi.
Meðal þess sem fram kemur er eftirfarandi:
• Beint framlag sjávarútvegs árið 2015 var 8,1% og lækkaði lítillega milli ára sem skýrist einkum af vexti annarra útflutningsgreina.
• Sjávarútvegur og sá klasi fyrirtækja sem í kringum hann hefur myndast leggja árlega til um 25% landsframleiðslu í heild.
• Staða sjávarútvegsins í heild er sterk líkt og undanfarin ár en fyrirkomulag peningamála og gengisskráning krónunnar nú þegar hyllir undir losun fjármagnshafta er talsverður óvissuþáttur.
• Annar óvissuþáttur sem nú blasir við er ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu en sala sjávarafurða til Bretlands skapar um 15% af útflutningsverðmætum sjávarafurða hérlendis.
• Heildarafli sjávarafurða jókst um 235 þúsund tonn árið 2015 samanborið við fyrra ár og skýrist það einkum af betri loðnuvertíð en árið áður.
• Útflutningsverðmæti á árinu 2015 voru lakari en aflabrögð gáfu tilefni til. Skýrist það af einkum af styrkingu krónunnar á tímabilinu, þeirri staðreynd að útflutningsverð loðnu, sem stóð undir þorra magnaukningar, voru lægri en á ýmsum öðrum tegundum og þrengingum á mörkuðum fyrir uppsjávarafurðir á Rússlandi.
• Nýfjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2015 nam 20,6 milljörðum króna sem er aukning frá árinu á undan um röska 4 milljarða króna.
• Sterkar vísbendingar eru til að beinum störfum í sjávarútvegi hafi fækkað verulega milli áranna 2014 og 2015.
Sjá nánar á vef Sjávarklasans.