Grundarfjarðarbær gekkst fyrir málstofu 31. október. Þar var leitað svara við því hvernig hann hafi fylgt þróun samfélags, tækni og tíðaranda, hver séu áhrif hans í dag á samfélag eins og á Snæfellsnesi og hvernig samfélagið hafi áhrif á hann.
Flutt voru fjögur erindi og í kjölfarið fóru fram umræður um efnið. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid tóku þátt í málstofunni, sem haldin var í Bæringsstofu, Grundarfirði. Forsetahjónin voru í opinberri heimsókn í Grundarfirði og Snæfellsbæ dagana 30.-31. október.
Tarnavinnan að baki
Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar ehf. í Grundarfirði rakti þær breytingar sem orðið hafa í starfsumhverfi sjávarútvegsins, veiðum og vinnslu, síðustu áratugi. Breytingin felst, að hans sögn, ekki síst í því að farið hefði verið frá vertíðarfyrirkomulagi og tarnavinnu, yfir í stöðuga vinnu, allt árið. Stöðugleiki í hráefnisöflun hefði aukist með togskipunum, fiskveiðistjórnunarkerfið hefði skapað árangur við uppbyggingu fiskistofnanna og stýring veiða og vinnslu hefði aukið atvinnuöryggi starfsfólks og hagkvæmni í rekstri fyrirtækjanna.
Hann rakti hvernig dreifingarleiðir í öflugri markaðssetningu á norskum laxi í mið- og suður-Evrópu hefðu opnað flutningsleiðir fyrir ferskan íslenskan fisk síðustu árin. G.Run. ehf. flytur nú megnið af sinni framleiðslu út ferskt, með flugi og skipum. Í júní sl. tók fyrirtækið í notkun hátæknifiskvinnsluhús, sem byggt var á 18 mánuðum, auk þess sem nýr Runólfur SH í eigu fyrirtækisins kom til heimahafnar þann 1. október sl. og er hann annað af tveimur togskipum G.Run.
Þörf fyrir sérhæft starfsfólk
Kristinn Kristófersson, fjárreiðustjóri FISK Seafood ehf. og Soffaníasar Cecilssonar ehf., kynnti starfsemi samstæðunnar, sem starfar í Skagafirði, á Snæfellsnesi og í Þorlákshöfn. Í Grundarfirði er rekin saltfiskverkun Soffanías Cecilssonar ehf. og í lok september sl. fengu fyrirtækin tvö ný togskip, Farsæl SH og Sigurborgu SH. Kristinn kom inná breytingarnar í greininni, árangur með betri stýringu veiða og tæknivæðingu veiða og vinnslu.
Kristinn velti upp þeirri spurningu hvort tæknivæðingin væri ógn við byggðaþróun. Hann spáði því að fiskvinnslum myndi fækka og þær stækka á næstu árum. Hann varpaði fram þeirri sýn að e.t.v. þyrfti svæðið ekki sem mestan fjölda starfa í greininni, heldur góð og vel launuð störf, þar sem róbótar og tæknivæðing kæmi í stað einhæfari starfa, en þörf ykist að sama skapi fyrir fagmenntað og sérhæft starfsfólk.
Heimsþekkt Snæfellsnes
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði og formaður stjórnar Svæðisgarðsins Snæfellsness, fór yfir markaða stefnu sveitarfélaga og atvinnulífs á Snæfellsnesi, sem miðar að því að gera Snæfellsnes heimsþekkt fyrir hágæða hráefni, gæði í framleiðslu og þjónustu, nýsköpun og vöruþróun, sem byggði á sjálfbærri nýtingu auðlinda og sérstöðu svæðisins.
Elín Guðnadóttir, verkefnisstjóri matarverkefna hjá Svæðisgarðinum Snæfellsnesi, fjallaði um hvernig hráefni verður að mat og kynnti ramma fyrir matarstefnu Snæfellsness. Hún vinnur nú að verkefni um sælkeraferðir á Snæfellsnesi, en verkefnið fékk styrk úr Matarauði Íslands. Elín fjallaði um virði matarmenningar og endaði á að rifja upp stefnu sænskra stjórnvalda um að gera sænskan mat og matargerð þekkt fyrir gæði, og um framfylgd þeirrar stefnu.
Í umræðum á eftir voru umhverfismál rædd, framþróun og orkusparnaður í sjávarútvegi og sú breyting sem felst í fjölgun erlendra starfsmanna í sjávarútvegi. Fram kom að þátttakendur teldu svæðið vera ríkt af auðlindum og að það ætti mikið inni, hvað varðar lífsgæði og uppbyggingu til framtíðar.