Sjávarútvegsskóli unga fólksins hlaut hvatningarverðlaun SFS árið 2022. Skólinn er sumarskóli fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára og er starfræktur víða um land. Hann er samstarfsverkefni Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnuskóla byggðarlaga.

Nemendur fá bóklega fræðslu í formi fyrirlestra og leikja. Þeir heimsækja fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskeldi svo og fyrirtæki í tengdum greinum.  Námsfyrirkomulag var breytilegt eftir byggðarlögum þ.e. það er mismunandi hvað hvert byggðarlag býður upp á varðandi heimsóknir.

Nemendur Sjávarútvegsskólans fá m.a. að  skoða fiskiskip, skoða fiskvinnslur, netagerðir og fá fræðslu björgunarsveita. Gestafyrirlesarar koma í heimsókn og fræða nemendur um sjávarútveg og ýmislegt honum tengt.

Kennt er 4-5 tíma á dag nokkra daga í viku. Kennarar eru bæði útskrifaðir nemendur úr sjávarútvegsfræði og líffræði við Háskólann á Akureyri, og einnig nemendur sem eru enn í námi við háskólann.

Fræðsluverkefni styrkt

Rannsóknasjóður síldarútvegsins hefur styrkt fjögur verkefni en tilkynnt var um styrkveitingarnar á ársfundi SFS.

Úthlutun fyrir árið 2022 frá Rannsóknasjóðnum fengu fræðslustyrki að upphæð tólf milljónir króna en Félag uppsjávariðnaðarins styrkti auk þess eitt verkefni um fimm milljónir króna.

Fyrst er að telja Sjávarlífveruvefsíðu Hafrannsóknastofnunar. Verkefnisstjóri er Svanhildur Egilsdóttir.

Margmiðlunarverkefni um konur í sjávarútvegi fékk styrk. Verkefnisstjóri er Árni Gunnarsson, sem samstarfsaðilar verkefnisins eru Skotta ehf., Árskóli og Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra.

Verkefnið Hvað er í hafinu – skipsflök og landslag í hafinu fékk styrk. Verkefnisstjóri er Guðrún Arndís Jónsdóttir og samstarfsaðilar eru Háskólinn á Akureyri, Sjávarútvegsmiðstöð (SJÁ), Unnur Ægis ehf., og Erlendur Bogason, kafari.

Verkefnið Saga fiskveiðistjórnunar á Íslandsmiðum í 80 ár, fékk einnig styrk. Verkefnisstjórar eru þeir Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Árnason. Samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands og Hagrannsóknir sf.

Öll fengu verkefnin þrjár milljónir í styrk en það síðast talda fékk einnig fimm milljóna króna styrk frá Félagi uppsjávariðnaðarins, en sá hluti snýr að bókarskrifum um efnið sem verður gefin út hér heima og erlendis.