Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra aftekur með öllu að gefinn verði út loðnukvóti fyrr en meira finnst af loðnu. Hann segir að engin haldbær rök séu til að taka þá áhættu með svo mikilvægan fiskistofn. Ríkisúvarpið skýrði frá þessu.
Loðnunnar er leitað sem aldrei fyrr en ekki hefur tekist að finna nóg til að gefa út kvóta. Aflaregla segir að halda verði eftir 400 þúsund tonnum óveiddum og ekki hefur enn tekist að finna svo mikið. Áskoranir berast sjávarútvegsráðherra um að gefa engu að síður út einhvern kvóta.
Sveitarfélög sem hagsmuni eiga af loðnuvinnslu nefna 50 þúsund tonn. Þetta þýðir að farið verði að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ekki veitt umfram það sem ráðlagt er, ráðherra kveðst hafa sömu afstöðu gagnvart öðrum tegundum eins og þorski, þótt vissulega séu miklir hagsmunir í húfi við veiðar og vinnslu.