Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fundaði í gær með Marek Gróbarczyk ráðherra sjávarútvegsmála Póllands. Þeir ræddu meðal annars samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs en um 20% af allri síld sem seld er í Póllandi kemur frá einu fyrirtæki á Íslandi, að því er segir í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins . Þá ræddu þeir einnig möguleika á frekari viðskiptum á milli landanna og samstarf á sviði skipasmíða.
Eftir fundinn undirrituðu svo ráðherrarnir viljayfirlýsingu um aukið samstarf á milli þjóðanna. Í því felst að efla viðskiptasamband þjóðanna á vettvangi sjávarútvegs, fiskeldis og líftækni og gagnkvæmur vilji aðila að auka samskipti milli ríkjanna til ábata fyrir báða aðila sérstaklega í tengslum við rannsóknir og þróun auk þess að styðja við samstarf háskólastofnanna í báðum löndum.
Í tilefni af heimsókn sinni heimsótti pólski ráðherrann ýmis íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi bæði á Akureyri og í Reykjavík. Jafnframt átti hann fund með hagsmunasamtökum í sjávarútvegi.