Í gær tók Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þátt í málþingi á vegum Universidad Andrés Bello, í Santiago í Síle. Á málþinginu var rætt um fiskveiðistjórn og reynslu Íslendinga og Sílebúa í þeim efnum. Meðal annarra framsögumanna var Raúl Súnico Galdames, sjávarútvegsráðherra Síle.
Á málþinginu var undirrituð viljayfirlýsing milli Universidad Andrés Bello og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, fyrir hönd íslenskra háskóla, sem hefur að tilgangi að ýta undir samstarf með skólunum á sviði fiskeldis- og fiskveiða, orkunýtingar og ferðaþjónustu. Á meðan á heimsókn ráðherra til Síle stendur mun hann kynna sér sjávarútveg og fiskeldi þar í landi og hitta bæði opinbera aðila og einkaaðila. Þá mun hann einnig kynna sér starfsemi íslenskra fyrirtækja í Síle.
Frá þessu er skýrt á vef atvinnuvegaráðuneytisins.