Sjávarútvegur á Grænhöfðaeyjum er í sókn. Talið er að á þessu ári muni sjávarafurðir nema meiru en 50% af útflutningsverðmæti landsins, að því er fram kemur á fis.com.

Haft er eftir sjávarútvegsráðherra Grænhöfðaeyja að einkum hafi orðið mikil aukning í niðursuðu sjávarafurða. Ráðherrann sagði jafnframt að stefnubreytingar væri að vænta í sjávarútvegi. Horfið yrði frá opinberum styrkjum en þess í stað lögð áhersla á að einkarekstur yrði driffjöður vaxtar.

Þess má geta að hér á árum áður veittu Íslendingar Grænhöfðaeyjum þróunaraðstoð á sviði sjávarútvegs, meðal annars með rannsóknum á fiskistofnum á landgrunninu.