Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 32,2 milljörðum króna í september samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Um er að ræða 27% aukningu frá sama mánuði í fyrra, en 33% ef tekið er tillit til gengisbreytinga.
Útflutningsverðmæti allra afurðaflokka jókst á milli ára í september á föstu gengi, að ferskum afurðum undanskildum sem stóðu nánast í stað. Mestu munar um þá ríflega þreföldun sem er á útflutningsverðmæti lýsis. Nam útflutningsverðmæti þess 4,7 milljörðum króna í mánuðinum, samanborið við 1,5 milljarð í september í fyrra. Þá tvöfaldaðist útflutningsverðmæti fiskimjöls milli ára, en það nam 2,9 milljörðum króna í september. Vægi fiskimjöls og lýsis í útflutningsverðmætum sjávarafurða var 24% og hefur sjaldan verið fyrirferðameira í septembermánuði. Eins er veruleg aukning í útflutningsverðmæti rækju. Það nam 1,7 milljarði króna í september, sem er 141% aukning frá sama mánuði í fyrra.
Þá var talsverð aukning í útflutningsverðmæti á söltuðum og þurrkuðum afurðum á milli ára í september, eða um 40% miðað við fast gengi. Eins varð ágætis aukning í útflutningsverðmæti á frystum flökum (13%) og frystum heilum fiski (9%). Myndin hér að neðan sýnir sundurliðun á útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir vinnslu undanfarinn áratug, reiknað á föstu gengi miðað við gengisvísitölu Seðlabankans.
24% aukning fyrstu níu mánuði ársins
Á fyrstu níu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 258 milljarða króna. Það er um 24% aukning frá sama tímabili í fyrra, leiðrétt fyrir gengi. Heilt yfir má því segja að það sé ágætis gangur í sjávarútvegi á árinu. Hækkun afurðaverðs á þar vissulega hlut að máli, sem er í takti við verðhækkanir í flestum öðrum geirum. Af þeim vinnsluflokkum sem birtir eru í bráðabirgðatölunum er eingöngu samdráttur í heilfrystum fiski.
Í ofangreindri aukningu munar mest um þá ríflega þreföldun sem orðið hefur á útflutningsverðmæti fiskimjöls og lýsis á milli ára, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Samsetning vinnsluflokka í útflutningi á hverjum tíma veltur eðlilega að miklu leyti á úthlutuðu aflamarki í einstaka tegundum. Stór loðnukvóti á síðasta fiskveiðiári hefur haft afgerandi áhrif hversu fyrirferðarmikið fiskimjöl og lýsi er nú. Vægi þess á fyrstu 9 mánuðum ársins í útflutningsverðmætum sjávarafurða alls er um 21% og hefur ekki vegið meira á því tímabili eins langt aftur og tölur ná, sem er frá árinu 2002. Jafnframt hefur samdráttur í aflaheimildum annarra tegunda, sér í lagi þorski, eðlilega áhrif.
Aldrei vegið minna
Þrátt fyrir myndarlega aukningu í útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu hafa sjávarafurðir aldrei vegið minna í verðmæti vöruútflutnings á fyrstu 9 mánuðunum. Það má fyrst og fremst rekja til þess að útflutningsverðmæti iðnaðarvara er að aukast töluvert umfram útflutningsverðmæti sjávarafurða, þá sérstaklega afurðir stóriðju. Verðhækkanir, fremur en magnaukning, liggja þar að baki. Útflutningsverðmæti álafurða er komið talsvert umfram útflutningsverðmæti sjávarafurða. Hlutdeild sjávarafurða var 35% af verðmæti vöruútflutnings á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við 40% á sama tímabili í fyrra.