Nýlega var sagt frá því á vef Hafrannsóknarstofnunar að svokölluð sindraskel væri farin að æxlast í fjörum hér á landi. Karl Gunnarsson, líffræðingur hjá stofnuninni, segir sindraskelina vera svokallaða hnífskel sem nýtt sé til matar víða um heim.
Fyrsti staðfesti fundurinn á sindraskel á Íslandi var í maí 2019 í Kollafirði. Fyrstu lifandi skeljarnar fundust í Leiruvogi í febrúar árið eftir. Og nú liggur fyrir að þessi tegund er farin að fjölga sér og finnst víða í sandfjörum í innanverðum Faxaflóa, frá Leiruvogi í Kollafirði til Borgarfjarðar, að því er segir á vef Hafrannsóknarstofnunar.
„Það er önnur skel sem er skyld þessari og kemur frá Ameríku líka sem hefur breiðst út í Evrópu og er svipuð, bæði að stærð og útliti. Hún er orðin mjög algeng í Evrópu og er nýtt þar til matar. Það er ekkert því til fyrirstöðu að að nýta þetta ef þetta verður í það miklu magni,“ segir Karl við Fiskifréttir.
Margar hliðar á landnámi sindraskeljar
Aðspurður segir Karl sindraskelina enn ekki í því magni að hægt sé að nýta hana í atvinnuskyni. Skeljar þessarar ættar séu hins vegar matarskeljar um allan heim og fáist hér jafnvel innfluttar í verslunum.
„Það eru margar hliðar á þessu,“ undirstrikar Karl. „Í fyrsta lagi er að vakta útbreiðsluna til þess að sjá hvað áhrif sindraskelin hefur á annað lífríki. Það er kannski ekki æskilegt að hún sé að ryðja öðrum í burtu eða draga úr magni annarra skelja sem eru nýttar, eins og kúskel og fleiri skeljar sem hér finnast og eru mikilvægar fyrir lífríkið.“
Spurningin sé síðan hvað gera eigi er skelin fer að aukast mjög. „Það er sennilega ómögulegt að uppræta hana ef hún er farin að breiðast út hérna. Þá má auðvitað spyrja sig að því hvort ekki sé rétt að reyna að nýta hana. Þetta er góð matskel og ekkert því til fyrirstöðu að nýta hana ef hún er í því magni að það borgi sig að gera það,“ segir Karl.
Hægt að tína úr fjörum
Þegar sindraskeljunum hefur fjölgað meira, sem nánast öruggt er að hún muni gera, getur fólk tínt hana úr fjörum sér til matar líkt og gert er erlendis.
„Það er hægt að gera það hér líka þegar það er orðið nægilega mikið af henni. Svo hefur hún líka verið nýtt á stærri skala erlendis, með plógum eða öðrum aðferðum til þess að ná henni upp í meira magni. Þá er hún tekin neðan fjörunnar, niður á dýpi. Við Nýfundnaland þar sem sindraskelin fannst fyrst er hún alveg niðri á tíu metra dýpi,“ segir Karl.
Vasahnífsskelin komin um alla Evrópu
Jackknive Clam, eða vasahnífsskel, sem er náskyld sindraskel, er orðin ein af algengustu
hnífskeljunum í Evrópu.
„Hún kom frá svipuðum slóðum og sindraskelin,“ segir Karl. „Hún barst frá austurströnd Norður-Ameríku og fannst fyrst við árósa Elbu við Hamborg. Hún hefur breiðst út og er komin norður til Noregs og alveg suður til Spánar og er orðin mjög algeng við Frakklands- og Spánarstrendur. Og reyndar við Holland og Belgíu líka.“
Vasahnífsskelina segir Karl geta tekið alveg yfir ákveðna gerð af sandfjörum og þá rutt öðrum tegundum frá. Þetta leggist misjafnlega í fólk.
„Þeir sem eru að nýta þetta eru glaðir þegar þær skeljar sem fyrir voru ekki nýttar. En þetta náttúrlega breytir umhverfinu. Af því að þetta er talið flutt af mannavöldum þá er verið að raska vistkerfinu,“ segir Karl. Skeljarnar hafi borist með kjölfestuvatni skipa og síðan séu aðrar tegundir sem festa sig utan á skip.
Geta safnað í sig eitri
Fyrir þá sem hafa hug á að tína sindraskel sér til matar er gott að hafa í huga að það sama gildir um hnífskelina og bláskelina eða kræklinginn sem við þekkjum hér.
„Þær lifa fyrst og fremst á jurtasvifi og það getur verið, sérstaklega á sumrin en líka oft á haustin, að það geta verið eitraðir svifþörungar í sjónum og þá safnast eitrið fyrir í skeljunum,“ segir Karl sem kveður Matvælastofnun fylgjast með eitrun skelja.
Hér á Íslandi hefur sindraskelin enn sem komið er aðeins fundist í fjörum hér en ekki lengra úti í sjó.
„Við höfum farið tvisvar og kafað og leitað að skelinni dýpra, fyrir neðan fjöruna, en höfum ekki fundið ennþá. Það hefur ekki verið nægjanlegt skyggni enda oft gruggugt í kringum sandfjörur og leirfjörur,“ segir Karl Gunnarsson.
Straumar munu bera skelin norður með landinu
Náttúrustofa Suðvesturlands annast vöktun á sindraskel og fylgist með útbreiðslu hennar.
„Síðustu tvö ár höfum við fylgst náið með þéttleika á skelinni í fjöru á tveimur stöðum; í Hvalfirði og Kollafirði,“ segir Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofunnar, sem ásamt Hafrannsóknastofnun, Náttúruminjasafninu og Matís hefur unnið að erfðafræðirannsóknum á sindraskelinni.
Tilvist sindraskelja hefur eingöngu verið staðfest við Ísland og við Nýfundnaland þar sem fyrst var úr því skorið árið 2012 að um sérstaka tegund hnífskeljar væri að ræða. Hún er afar lík svokallaðri jackknive-skel eða vasahnífsskel sem fyrst nam land í Evrópu fyrir rúmlega þrjátíu árum og finnst nú þar víða um lönd og er nýtt til matar. En þar er hún víða einnig til vandræða þar sem hún tekur heilu búsvæðin yfir, til dæmis við Holland og er þar skilgreind sem framandi ágeng tegund.
Uppgötvaðist fyrir tilviljun
„Það átti að gera erfðastúdíu á þessari amerísku tegund sem hefur verið að flytjast til Evrópu og valda usla þar. Það var búið að safna sýnum frá Nýfundnalandi og þá kemur þetta óvænt í ljós,“ segir Sindri um það hvernig sindraskelin uppgötvaðist. „Hún kom í ljós eingöngu út af erfðarannsókn á hinni tegundinni. Annars myndu menn enn þann dag ekkert vita um að þetta er sitt hvor tegundin.“
Að sögn Sindra virðist þéttleikinn á sindraskelinni við Ísland vera árstíðabundinn. Mest virðist vera af skelinni í fjörum á tímabilinu í febrúar og fram í apríl. Sjálfur hefur Sindri ekki bragðað sindraskelina.
„Við erum búin að vera svo fókuseruð á vísindin að það hefur verið í forgangi að fá erfðasýni af öllum eintökum til varðveislu, en ég hlakka til að smakka hana. Hnífskeljar eru almennt mjög vinsæll matur þar sem þær finnast. Þannig að þær eru nýttar og þykja herramannsmatur,“ segir Sindri
Mun fylgja í slóð grjótkrabbans
Aðspurður segir Sindri allt benda til þess að fólk muni geta tínt sindraskeljar sér til matar hér.
„Henni virðist vegna vel hérna og hún er að fjölga sér,“ segir Sindri og undirstrikar að mikilvægt sé að halda vöktuninni áfram og fylgja landnámi skeljarinnar þannig eftir.
„Líkt og gerðist með grjótkrabbann þá mun strandstraumurinn líklega flytja sindraskelina norður með landinu. Svo er að sjá hversu þolin hún er og hvort hún nær sömu útbreiðslu og grjótkrabbinn á næstu tveim áratugum – sem er 70 prósent af strandlengjunni,“ segir Sindri.
Jafnvel þótt menn vildu stemma stigu við útbreiðslu þessarar landnemaskeljar er það ekki mögulegt.
Íslendingar þurfa að gæta sín
„Það er ekki hægt að uppræta tegund eins og þessa þegar hún er orðin svona útbreidd. Þess vegna er forvörnin okkar helsta vopn – að passa að tegundir berist ekki hingað með kjölfestuvatni, skipsskrokkum og með fiskeldi,“ segir Sindri og bendir á að ekki séu allar aðkomutegundir nytjategundir eins og grjótkrabbinn og mögulega sindraskelin.
„Við erum líka með mögulega neikvæð áhrif af tegundum sem við getum nýtt eins og með grjótkrabbann þar sem við erum að sjá innlenda stofna krabba hrynja eins og hér í Faxaflóa,“ segir Sindri. Gera eigi það besta úr stöðunni og nýta það sem hægt sé.
„En það þarf að halda því á lofti að við þurfum virkilega að passa okkur því sjávarauðlindin er okkur Íslendingum mjög verðmæt. Vistkerfi okkar eru viðkvæm og framandi tegundir geta haft algjörlega ófyrirséð áhrif á þau.“