„Ísland er Kísildalur sjávarútvegsins,“ sagði Dag Sletmo á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem haldinn var í Hörpu síðastliðinn föstudag. Hann Sletmo sagðist stundum nota þetta orðalag um Noreg, en þá í tengslum við laxeldi, ekki sjávarútveg almennt. Ísland sé eins konar miðpunktur alls sjávarútvegs í heiminum.

Sletmo er aðstoðarframkvæmdastjóri DNB bankans í Noregi og ber þar ábyrgð á kortlagningu og greiningu strauma og stefna í sjávarútvegi. Hann ræddi í erindi sínu um helstu tækifæri og helstu hættur sem greina má í sjávarútvegi í heiminum, og hér á landi.

Hvað varðar stöðu Íslands í alþjóðlegum sjávarútvegi sagðist hann byggja mat sitt á tölum um arðbærni, sem eru hærri í íslenskum sjávarútvegi en annars staðar þekkist. Regluramminn utan um íslenskan sjávarútveg sé auk þess bæði markaðsmiðaðri og virkari en í öðrum löndum. Og samanborið við Noreg er áherslan meira á verðmæti og gæði en í Noregi frekar horft á mikið magn og lágan tilkostnað.

„En hvers vegna skiptir þetta máli, að vera Kísildalur einhvers. Það getur vissulega framkallað stolt en það er líka mjög dýrmæt staða sem eykur verðmæti og getur líka opnað möguleika til framtíðar.“

Mannfólk og menning

Hann sagði auðlindina augljóslega eiga stóran þátt í þessu: „Þið eruð með fullt af fiski. En ég held að þarna búi fleira að baki,“ og þar nefndi hann mannauðinn: „Það er ekki bara auðlindin, þið hafið byggt þetta upp sjálf.“

Annað sem hann taldi hafa skipt máli er menningin hér á landi, sem einkennist meðal annars af því að fjarlægðin frá „toppi niður á gólf“ er lítil þegar að ákvarðanatöku kemur, auk þess sem Íslendingar hræðist ekki að segja skoðanir sínar, jafnvel gagnvart yfirmanni sem kannski er ósammála.

„Þetta er mikilvægt í starfsgreinum þar sem taka þarf ákvarðanir á staðnum á meðan framleiðslan er í gangi, hvort sem það er á fiskiskipi eða á laxeldisstöð.“

Raunsæi

Hann nefndi líka ákveðið raunsæi, sem sé mikilvægt þegar kemur að regluverkinu umhverfis sjávarútveginn.

„Reglurnar skipa miklu máli, og þær eru mikilvægari í sjávarútvegi heldur en í flestum öðrum greinum. Jafnvel mikilvægari en í bankageiranum þar sem margt getur farið alvarlega úrskeiðis.“

Á hinn bóginn séu þeir sem setja reglurnar oft með alls konar hugmyndafræði í farangrinum, en hann sagðist ekki telja að í greinum sem snúast um lífríkið sé mikið pláss fyrir hugmyndafræði.

Hann tók dæmi af Noregi og Chile, sem fóru gerólíkar leiðir í að setja umgjörð utan um laxeldi þegar sú vegferð var að hefjast í þessum löndum. Noregur sé með sterka hefð fyrir strangri reglusetningu en Chile hafi orðið fyrir miklum áhrifum af Milton Friedman og forðast að setja mjög strangar reglur.

„Með tímanum hafa þessi tvö lönd færst nær miðjunni og þróað með sér ákveðið raunsæi.“

Endalok alþjóðavæðingar?

Sletmo kom annars víða við í erindinu, en undir lokin vék hann orðum sínum meðal annars að stríðinu í Úkraínu og vitnaði þá í Larry Fink, stjórnanda fjárfestingafélagsins BlackRock, sem hefur sagt að þetta stríð marki endalok alþjóðavæðingar. Að vísu sé erfitt að segja hvað það eigi að þýða, „en fyrir atvinnugrein sem flytur út nánast alla framleiðslu sína þá blasir við að þetta skiptir máli.“

Hann sagði reyndar ekki telja að þessi þróun, og á þar væntanlega við bakslag í alþjóðavæðingunni, hafi byrjað með stríðinu í Úkraínu. Sú þróun hafi byrjað með sjálfvirknivæðingunni og tölvuvæðingunni fyrir þó nokkrum árum. Með þeirri tækni hafi möguleikar myndast til að snúa þróuninni við, færa framleiðsluna aftur til baka frá ódýrum framleiðslulöndum til dýrari landa. Síðan komu Donald Trump og fleiri með nýja bylgju verndarstefnu, og svo kom covid og nú síðast þetta stríð í Úkraínu.

„Og hvað þýðir þetta þá? Er heimurinn að breytast í þá átt að varnarstefna og viðskiptastefna verður eiginlega sami hluturinn?“

Í framhaldi af því ræddi hann sjálfbærni og fótspor matvæla, þar sem fiskur kemur mjög vel út. Þetta skipti sérstaklega máli fyrir matvælaiðnaðinn vegna þess að þriðjungurinn af útblæstri gróðurhúsalofttegunda kemur frá matvælaframleiðslu.

„Þetta er gríðarlega mikið en við tölum ekki mikið um það. Við viljum frekar tala um siglingar og flug og annað sem er bara um 2-3 prósent, en þetta er þriðjungurinn. Þetta á eftir að fá miklu meiri athygli en það hefur haft fram að þessu.“

Partur af lausninni

Síðan vék hann stuttlega að líffræðilegum fjölbreytileika, þar sem staðan er enn verri. WWF segir að matvælaframleiðsla sé að baki 94% af þeim ógnum sem steðja að líffræðilegum fjölbreytileika á jörðinni, en þar skeri sjávarafurðir sig úr og hafi góða sögu að segja.

Loks vitnaði hann í Bill Gates sem hefur bent á að til þess að geta framleitt mat fyrir 10 milljarða manna , en ef matvæli verði áfram framleidd með sama hætti og nú er, með sömu tækni og sömu aðferðum, þá muni útblástur gróðurhúsalofttegunda aukast um 2/3, sem yrði stórslys fyrir loftslagið.

„Ég held að þetta eigi eftir að verða stórmál á hinum pólitíska vettvangi og á vettvangi sjálfbærni, en ég held að þarna sé gríðarstórt tækifæri fyrir sjávarafurðir að verða hluti af lausninni.“

Myndir frá fundinum má nálgast hér í samantekt SFS.