Um langt árabil skilaði þorskurinn mestum tekjum til danskra sjómanna og útvegsmanna. Árið 2012 skaust síldin hins vegar upp í fyrsta sætið, að því er fram kemur í frétt í danska sjónvarpinu.
Dönsk skip lönduðu síld að verðmæti 640 milljónum DKK á árinu 2012 (14,9 milljarðar ISK). Aflaverðmæti þorsks, sem var í öðru sæti, var mun minna eða um 368 milljónir.
Mikil aukning varð í síldveiðum Dana, eða um 45% í tonnum talið milli áranna 2011 og 2012. Síldveiðarnar hafa ekki verið jafnmiklar síðan árið 2006.
Makríll er þriðja mikilvægasta fisktegund Dana árið 2012. Makríllinn vermdi reyndar fyrsta sætið árið 2011 en aðeins það eina ár.