Þrettán ár eru liðin frá því Ísland skilaði inn greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk íslenska landgrunnsins utan 200 sjómílna. Greinargerðin tók til landgrunnsins á tveimur hafsvæðum, annars vegar í Síldarsmugunni og hins vegar á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar.

Landgrunnsnefndin féllst að fullu á kröfur Íslendinga varðandi Síldarsmuguna en nefndin er enn með til meðferðar afmörkun landgrunnsins á Reykjaneshrygg. Greinargerðin náði þó ekki til tveggja annarra umdeildra svæða, nefnilega Hatton-Rockall svæðins og austurhluta Reykjaneshryggjar.

Hvað Síldarsmuguna varðar þá er meðferð nefndarinnar sem sagt formlega lokið og fyrir liggja samningar við bæði Noreg og Danmörku, en þeir samningar hafa verið í smíðum síðan 2006 og voru loks undirritaðir í október árið 2019.

Snýst ekki um fiskveiðar

Nú vikunni lauk svo síðari umræðu á Alþingi um þingsályktun sem heimilar Alþingi að staðfesta þessa tvo samninga. Atkvæðagreiðslu var frestað en vart við öðru að búast en að tillagan verði samþykkt fljótlega. Þar með er loks að ljúka þeirri þrettán ára vegferð sem hófst þegar greinargerð Íslands var skilað inn árið 2009.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er tekið fram að vegna samsetningar hafsbotnsins á svæðinu sé ólíklegt að þar sé að finna vetniskolefnislög eða aðrar jarðefnaauðlindir. Einnig er áréttað að samningarnir taka ekki að neinu leyti til fiskveiða á svæðinu, enda fjalla þeir einungis um skiptingu landgrunnsins milli ríkjanna þriggja.

Í samningnum við Noreg ekkert fjallað efnislega um auðlindanýtingu heldur vísað til samnings þar um milli Íslands og Noregs frá árinu 2008. Í samningnum við Danmörku, sem Danmörk gerði fyrir hönd Færeyja, er hins vegar fjallað um þær reglur sem gilda um nýtingu hugsanlegra auðlinda á svæðinu og sagt að aðilar skuli hafa með sér samráð við nýtingu jarðefnalaga sem kunna að finnast. Hvorugur aðili skuli nýta sér vetniskolefnislagið fyrr en gerður hafi verið samningur um nýtingu, en náist samningar ekki þá skuli vísa deilunni í gerðadóm.

Óleystur ágreiningur

Hvað afmörkun landgrunnsins á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar varðar þá er hún sem fyrr segir enn til meðferðar fyrir landgrunnsnefndinni og var endurskoðaðri greinargerð um þann hluta landgrunnsins skilað til nefndarinnar í mars 2021. Danir fara þar með kröfur fyrir hönd Grænlands.

Enn er síðan fyrir hendi ágreiningur um afmörkun landgrunnsins á bæði Hatton-Rockall svæðinu og við austurhluta Reykjaneshryggjar. Íslendingar eru að vinna að greinargerð fyrir þessi svæði sem send verður til landgrunnsnefndarinnar.

Samkvæmt Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna hafa strandríki tilkalla til 200 mílna efnhagslögsögu, en geri þau tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna ber þeim að gera ítarlega grein fyrir kröfum sínum. Flóknast er Hatton-Rockall svæðið í suðri því auk Íslands gera bæði Bretland og Írland kröfur til þess og Danmörk sömuleiðis fyrir hönd Færeyja.