Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki í fjórum tegundum þar sem veiðar miðast við almanaksárið. Hér er um að ræða norsk-íslenska síld, kolmunna, úthafskarfa og þorsk í norsku lögsögunni í Barentshafi.

Heildaraflamark í norsk-íslenskri síld er 102.984 tonn. Frá dragast 5.458 tonn (5,3%) vegna sameignlegra potta. Til úthlutunar á skip koma því 97.526 tonn. Hér er um verulega aukningu frá fyrra ári því úthlutun á skip var þá 41.825 tonn. Aukningin er 133%.

Upphafsveiði í kolmunna á árinu 2017 er 150 þúsund tonn en til úthlutunar koma 142.051 tonn. Í upphafi árs 2016 var úthlutunin 154.902 tonn þannig að hér er um örlitla minnkun að ræða. Hins vegar er þetta ekki endanleg úthlutun. Leyfilegur heildarafli Íslands verður endanlega ákveðinn þegar fyrir liggja ákvarðanir annarra ríkja um heildarafla.

Heildaraflamark í úthafskarfa á þessu ári er 2.327 tonn en til úthlutunar koma 2.204 tonn. Þetta er svipað og í fyrra en þá var úthlutun á skip 2.497 tonn.

Íslensk skip mega veiða 6.517 tonn af þorski í norsku lögsögunni í Barentshafi á árinu 2017. Þetta er nánast sama magn og á síðasta ári en þá gátu skipin veitt 6.547 tonn af þorski.