Sigurður VE 15 er á heimleið til Vestmannaeyja eftir viðgerð í Egersund í Noregi en skipið lagði af stað aðfaranótt laugardags. Þorbjörn Víglundsson, í áhöfn Sigurðar, segir í samtali við Eyjafréttir.is að skipið sé nú um 40 sjómílur suðvestur af Suðurey í Færeyjum.
Þorbjörn segir veðrið hafa verið slæmt á leiðinni og það sé farið mjög hægt yfir, sennilegast verði álíka veður alla leið heim til Eyja.
„Hér er vestan 20-25 metrar á sekúndu og mikill sjór, ætli ölduhæð sé ekki 8-9 metrar,“ segir Þorbjörn. Hann segir að þetta mjakist þó og stefnt sé að því að ná heim fyrir jól.