Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, setti hinn árlega Skrúfudag Tækniskólans sem haldinn var hátíðlegur um helgina.

Frá þessu segir á vefsíðu Landhelgisgæslunnar, lhg.is.

Georg sagði við setninguna að stofnun Stýrimannaskólans árið 1891 væri eitt af stóru framfaraskrefum í sögu þjóðarinnar og að saga menntunar sjófarenda og sögu Landhelgisgæslunnar sé samofin.

,,Landhelgisgæslan var stofnuð 35 árum eftir að Stýrimannaskólinn var settur á laggirnar og naut góðs af því öfluga starfi sem þar var unnið. Án þeirrar þekkingar sem námið stuðlaði að hefðu stærstu fullveldissigrar þjóðarinnar í Þorskastríðunum tæplegast unnist,“ er vitnað til ávarps Georgs sem kvað Landhelgisgæsluna hafa notið góðs af yfirburðaþekkingu og klókindum áhafna varðskipanna þegar fiskveiðilögsagan var færð í 200 sjómílur.

Námið leggur grunninn að svörum

Georg Lárusson. Mynd/LHG
Georg Lárusson. Mynd/LHG

,,Fagmennska hefur ætíð einkennt skipstjórnar- og vélstjóranám á Íslandi. Þegar við hjá Landhelgisgæslunni tökum á móti okkar helstu samstarfsþjóðum um borð í varðskipum Gæslunnar, vilja þær læra af okkur og fá að vita hvernig íslenskir sjómenn starfa. Við fáum spurningar um hvernig best skuli staðið að siglingum hér í Norður-Atlantshafi við þær krefjandi aðstæður sem hér ríkja og hvernig fara skuli að. Námið hér í skólanum leggur grunninn að svörunum við þeim spurningum sem við miðlum af stolti,“ sagði Georg einnig á Skrúfudeginum.