Með tillögu að nýju skipulagi er lögð fram uppbyggingaráætlun hafnarinnar á Siglufirði með stækkun Óskarsbryggju og nýs hafnarkants sunnan hennar. Þetta kemur fram í tillögu sem lögð var fram í skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar í liðinni viku og er á leið í auglýsingu. Í henni felst framtíðarstefnumótun og endurskipulagning vinnusvæða og móttöku skemmtiferðaskipa.
„Þetta mun breyta því að við getum tekið á móti stærri skemmtiferðaskipum og fleiri í einu,“ segir Friðþjófur Jónsson, yfirhafnarvörður á Siglufirði
Stendur höfninni fyrir þrifum
„Það þarf að dýpka og gera uppfyllingu til að komast aðeins frá fjörunni út á dýpra vatni. Síðan þarf stálþil og steypa þekju og setja upp girðingar til að geta tekið á móti skemmtiferðaskipum,“ segir Friðþjófur. Áætlað er að landfyllingin verði 1,45 hektarar. Í þessu felist hagsmunir fyrir hafnarsjóðinn.
„Við viljum náttúrlega fá stærri bita af kökunni í þeim efnum og þetta stendur okkur aðeins fyrir þrifum,“ segir Friðþjófur.
Þessum framkvæmdum sem enginn tímarammi er þó kominn á enn þá fylgja líka tilfæringar uppi á landi. „Það á að gera þetta skemmtilegt og aðlaðandi fyrir fólk,“ segir yfirhafnarvörðurinn.
Sjávarútvegur fær sitt rými
„Markmiðið er að tryggja eftir því sem kostur er sambýli ólíkra atvinnugreina, það er ferðaþjónustu og sjávarútvegs,“ segir í tillögunni. Skapa eigi tækifæri í atvinnulífi, bæta ásýnd á Óskarsbryggju, meðal annars vegna farþegaskipanna og varðskips Freyju sem á heimahöfn á Siglufirði og leggur að Óskarsbryggju.
„Nýr hafnarkantur mun meðal annars gefa kost á móttöku stærri skipa svo sem
skemmtiferðaskipa. Svæði fyrir ferðaþjónustu er skýrt afmarkað frá sjávarútvegi. Sjávarútvegur og tengd starfsemi fær áfram rými til útvíkkunar bæði við Hafnarbryggju í tengslum við núverandi starfsemi og við Óskarsbryggju tengt óbyggðum athafnalóðum,“ er tekið fram í tillögunni.
Óskarsbryggja lengd um 270 metra
„Móttökusvæði skemmtiferðaskipa er afgirt og gert er ráð fyrir þjónustubyggingu við enda Aðalgötu því tengt,“ segir í tillögunni. „Gamalli aldursfriðaðri verbúð, sem nú er innan skipulagssvæðisins, mætti ef til vill gefa nýtt líf við móttökutorgið.“
Byggðin á Eyrinni er sögð sundurlaus og skörðótt. „Víða ægir saman ólíkum og misstórum byggingum enda mætast þar íbúðarsvæði, ferðaþjónusta og hafnar- og iðnaðarsvæði. Mikil breyting hefur orðið á ströndinni og hafnarsvæðum frá því á síldarárunum. Síldarplön og bryggjur hafa vikið fyrir umfangsminni en veigameiri hafnarmannvirkjum og sjóvarnargörðum.“
Ráðgert er að Óskarsbryggja geti lengst til suðurs og orðið allt að 270 metrar. Gert er ráð fyrir nýrri bryggju milli Óskarsbryggju og Hafnarbryggju sem verði um 220 metrar að lengd og stefni NNA-SSV.
Vilja landtengja hafnirnar
Varðandi umhverfisáhrif vegna breytinga á höfninni í Siglufirði segir í skipulagstillögunni að með móttöku stórra skipa, þar á meðal skemmtiferðaskipa, megi búast við aukinni loftmengun og jafnvel mengun sjávar.
„Fjallabyggð stefnir að því að landtengja hafnir sínar en til þess þarf að styrkja dreifikerfi raforku til sveitarfélagsins. Óljóst er hversu mikil áhrif aukin umferð skemmtiferðaskipa mun hafa á loftgæði, vatnsgæði, gróður og dýralíf sjávar. Auknir möguleikar sveitarfélagsins til móttöku skipa munu skila auknum hafnargjöldum og tækifærum í ferðaþjónustu. Áhrif á efnahag og atvinnulíf eru því talin jákvæð,“ segir um umhverfisáhrifin.