„Það var árið 2022 sem Bretarnir höfðu samband við okkur, voru að leita að öflugum samstarfsaðila á Íslandi til að setja saman tvo fjarstýrða kafbáta sem áttu að sigla fyrir eigin vélarafli til Skotlands, 2.500 km leið og taka ýmiskonar sýni og gera margskonar prófanir á leiðinni,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja í samtali við www.eyjafrettir.is.

Hörður sat verkefnafund hjá National Oceanography Centre, Bresku hafræðistofnunni (NOC) sem er með aðalstöðvar sínar í Southampton. Áhugaverð tilraun hér í Eyjum í sumar sem tókst jafnvel betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Á meðan verkefninu stóð var fylgst daglega með bátunum í gegnum gervihnött.

Næsta skref í verkefninu er að kanna hvort nýta megi kafbáta af þessu tagi enn frekar, t.d. í leit að uppsjávarfiski, síld, loðnu og makríl. Hörður segir að Bretarnir hafi verið í sambandi við fleiri á Íslandi en niðurstaða þeirra var að velja Vestmannaeyjar. „Þeim leist vel á Þekkingarsetrið og Vestmannaeyjar, öflugt bæjarfélag með mjög hæfu tæknifólki sem gæti gripið inn í ef eitthvað þyrfti að lagfæra eða smíða. Við vorum i samskiptum í eitt ár og í janúar á þessu ári komu tveir erlendir sérfræðingar, þeir Ed Chaney og Peter Lambert frá NOC og kynntu sér aðstæður og héldu fyrirlestra fyrir áhugasama Eyjamenn sem milli 20 og 30 sátu. Þeim leist vel á og margt áhugavert kom fram í fyrirlestrum þeirra um þá tækni sem ætlunin væri að nýta.“

Fór 2500 km á einni hleðslu

Hörður segir að í spjalli þeirra á milli hafi kviknað hugmynd, hvort ekki mætti nota kafbátana við fiskleit, einkum á uppsjávarfiski, loðnu, síld eða makríl. „Næsta skref var að kanna hvort mögulegt væri að koma bergmálsmæli fyrir um borð í bátunum ásamt öflugum fjarskiptabúnaði sem myndi nýtast við leitina. Ferð bátsins sem í sumar sigldi frá Eyjum til Harryseyjar á Skotlandi sýndi og sannaði að þetta er hægt. Hann sigldi þessa 2.500 km á einni hleðslu.“

Fjallað er nánar um þetta á www.eyjafrettir.is.