Stjórn Gafls, félags um þingeyskan byggingararf, skorar á sveitarstjórn Norðurþings að beita sér fyrir varðveislu Helguskúrs á Hafnarstétt á Húsavík. Skúrinn verði varðveittur með innanstokksmunum í samvinnu við eigandann, Helga Héðinsson sjómann og fjölskyldu hans.

„Í húsinu er safn minja húsvískrar sjómannsfjölskyldu á seinni hluta 20. aldar. Helguskúr stendur einn eftir af beituskúraþyrpingu á Stéttinni með gögnum og gæðum og því gefst einstakt tækifæri að styðja eigandann og fjölskyldu hans til að koma upp lifandi safni þar sem ferðafólk og gestir fá innsýn í að mestu horfinn heim, sem segir sögu, sem mikilvægt er að varðveita,“ segir í bréfi Snorra Guðjóns Sigurðssonar, formanns Gafls, til Norðurþings.

Enn fremur segir Snorri Helguskúr vera einn vinsælasta áningarstað gesta á bæjarhátíðinni Mærudögum. „Þangað hafa streymt eldri og yngri og fengið innsýn í sögu smábátaútgerðar á Húsavík.“

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants vill skúrinn burt

Helguskúr er og hefur verið þyrnir í augum nágrannanna í hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants sem lengi hefur bent á skúrinn sé í leyfisleysi þar sem hann stendur.

Í Helguskúr.
Í Helguskúr.

Í bréfi til Norðurþings fyrr í þessum mánuði vegna kynningar  sveitarfélagsins á tillögu að breytingu deiliskipulags miðhafnarsvæðisins minnti lögmaður Gentle Giants á það að í desember síðastliðnum samþykkti skipulags- og framkvæmdaráð sveitarfélagsins að Helguskúr yrði fjarlægður fyrir 1. nóvember á þessu ári. Sagði ráðið að staðsetning skúrsins samræmdist ekki deiliskipulagi.

„Á skipulagsuppdrætti tillögunnar er staðsetning Helguskúrs sýnd óbreytt,“ bendir lögmaður Gentle Giants á  og segir að fella ætti skúrinn út úr uppdrættinum.

Flutningur gæti verið lausnin

Spurður um mögulega lausn á málinu segir Snorri hjá Gafli að nefnt hafi verið að annaðhvort flytja Helguskúr örlítið frá húsi Gentle Giants eða flytja hann annað, til dæmis upp í Safnahús þar sem fyrir sé beitingarskúr sem áður var á svipuðum stað.

„Tilflutningur er svo sem eitthvað sem okkur myndi hugnast en það er þá spurning um hvert. Við erum alfarið á móti því að húsið verði bara rifið,“ segir formaður Gafls