Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda skora á stjórnvöld að verð á fiskmarkaði verði látið ráða í öllum viðskiptum með fisk, tekinn verði upp fjárhagslegur aðskilnaður veiða og vinnsla og að allur strandveiðiafli fari á opinn fiskmarkað.

Aðalfundur SFÚ var haldinn laugardaginn 12. nóvember sl. Í framhaldi af aðalfundi sendi stjórn SFÚ frá sér eftirfarandi ályktun:

,,SFÚ skorar á stjórnvöld að skapa sjávarútvegnum heilbrigt og gott samkeppnisumhverfi með því að stuðla að réttri verðmyndun á afla þar sem markaðsverð á opnum fiskmarkaði verði látið ráða í öllum viðskiptum með fisk og Verðlagsstofa skiptaverðs verði lögð niður. Slíkt stuðlar að réttu uppgjöri útgerðar, réttu uppgjöri til sjómanna, réttum hafnargjöldum og réttum gjöldum til hins opinbera.

SFÚ skorar á stjórnvöld að lögbinda fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu þar sem útgerðarhluti fyrirtækja er, með úthlutun aflaheimilda, rekinn í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar á sama tíma og vinnsluhluti fyrirtækja er í frjálsri samkeppni. Benda má á að slíks fjárhagslegs aðskilnaðar er krafist við nýtingu annarra auðlinda, s.s. orku. Ekki er hægt að sýna fram á rétta afkomu útgerðar á meðan hægt er að flytja arðinn af veiðunum yfir á fiskvinnsluna.

SFÚ skorar á stjórnvöld að stuðla að því að aukið magn hráefnis skili sér inn á fiskmarkaðina með því m.a. að skilyrða að allur strandveiðiafli og ýmiss ívilnunarafli verði seldur á opnum fiskmarkaði. ”