Árshátíð Samherja verður haldin í Póllandi í þriðja sinn á laugardaginn. Fögnuðurinn fer fram í Sopot og munu um eitt þúsund manns fljúga utan í sex þotum.

Þetta kemur fram á vef Samherja. Þar segir að öll skip félagsins séu komin til hafnar og að engin vinnsla verði í vinnsluhúsum félagsins í þrjá daga. Tvær fyrstu þoturnar fljúgi frá Akureyri strax í dag. Árshátíðin einnig verið í Sopot fyrir þremur árum þar sem allar aðstæður séu mjög góðar.

Eigi skilið að skemmta sér saman

„Þetta er um margt kærkomið frí, okkur hefur til þessa tekist að tryggja starfsemi í landvinnslunni alla daga ársins, fyrir utan hefðbundin sumarleyfi. Starfsfólkið, bæði til sjós og lands, á því sannarlega skilið að skemmta sér saman og treysta um leið vinaböndin enn frekar,“ er haft eftir Önnu Maríu Kristinsdóttur mannauðsstjóra Samherja.

Anna María segir landslið íslensks tónlistarfólks verða með í för og sjá um að allir skemmti sér konunglega. „Fyrri árshátíðir í Póllandi hafa tekist afskaplega vel, þannig að það er mikil tilhlökkun meðal starfsfólks og gesta,“ segir hún á samherji.is.