Helstu keppinautar Íslendinga á ítalska saltfiskmarkaðinum eru Færeyingar sem sérmerkja á umbúðum sínum þann fisk sem þeir veiða við Ísland. Þetta kom fram í máli Rólands R. Assier deildarstjóra saltfiskdeildar Iceland Seafood á markaðsfundi fyrirtækisins á dögunum.

Færeyingar hafa kvóta í íslenskri lögsögu upp á 5.600 tonn af bolfiski, þar af 1.200 tonn af þorski. Auk þorsksins veiða þeir aðallega löngu og keilu hér við land.

„Það versta við þetta er að Færeyingar eru farnir að markaðssetja þennan saltfisk og merkja öskjurnar sérstaklega sem fisk veiddan í íslenskri lögsögu. Færeyingar hafa náð mjög góðum árangri í notkun aukaefna og framleiða afar góðan saltfisk en selja hann á lægra verði en við. Verðmunur á íslenskum saltfiski og fiski frá Færeyjum getur verið 10-15%,“ sagði Róland.

Sjá nánari umfjöllun um ítalska saltfiskmarkaðinn í nýjustu Fiskifréttum.