Davíð Freyr var sá sem upphaflega hóf tilraunaveiðar á grjótkrabba árið 2010 í gegnum fyrirtæki sitt Arctic sem seinna sameinaðist Royal Iceland. Veiðarnar hafa verið þróaðar áfram síðastliðin tólf ár en ýmsir aðrir aðilar hafa á þessum tíma reynt fyrir sér með þessar veiðar en yfirleitt í skamman tíma.
„Það hafa verið margar hindranir á þessari vegferð, í veiðinum, vinnslunni og sölu afurðanna. Búið er að finna þokkaleg veiðisvæði og nú er verið að leggja grunn að samkeppnishæfri vinnslu.“
Þróun upp úr annarri vél
Við höfum skoðað ýmislegt í vinnslu á afurðinni en helsti ókosturinn við að vinna krabba er einstaklingsmunur á krabbanum gerir það aðv erkum að eina leiðin til að nýta viðunandi hlutfall af veiðini er að vinna kjötið úr honum. Við einfaldari vinnslu færi stór hluti aflans því forgörðum.

- Grjótkrabbi er nýbúi á Íslandi sem hefur dreift sér hratt og er víða orðinn nokkuð þéttsetinn. Aðsend mynd
„Þetta er frekar dýr og sérhæfður búnaður sem er notaður til þess að vinna kjöt úr krabba og hver vél er sérhæfð fyrir hverja krabbategund. Kanadamenn hafa mikið notað búnað sem brýtur grjótkrabbann niður og fleytir kjötinu frá skelinni. Afleiðingin af þeirri vinnslu er sú að bragðeiginleikar krabbakjötsins tapast að verulegu leiti. Þess vegna höfum við verið að fylgjast með norskum framleiðanda sem hefur verið að þróa aðferð sem þurrvinnur kjötið.“
Arkos hefur þróað vélbúnað til þess að vinna kjöt úr töskukrabba sem veiðist við Noregsstrendur. Á ensku kallast þessi tegund brown crab og er einnig mikið veiddur af Bretum og Frökkum.
„Við höfum haft augastað á þessum búnaði í töluvert langan tíma og verið í samskiptum við Arkos í um tíu ár. Að lokum var gert samkomulag milli Royal Iceland og Arkos um þróun og breytingu á vélbúnaði þeirra fyrir vinnslu á grjótkrabba. Við fengum styrk frá Matvælasjóði til þess að fara í gegnum þetta þróunarferli.“

- Aurora Seafood, í samstarfi við Curio, hefur undanfarin ár unnið að þróun vélbúnaðar fyrir vinnslu á sæbjúgum. Aðsend mynd
Vélarnar eru þrjár og eru tvær komnar til landsins. Prófanir hafa staðið yfir frá því í nóvember á síðasta ári. Davíð Freyr segir að þær breytingar sem hafa verið gerðar hafi leitt til þess að ná má góðu kjöti úr krabbanum þó enn eigi eftir að ná fram betri nýtingu og afköstum. Önnur vélin hlutar krabbann í sundur, tekur skjöld, hala og klær af og hreinsar af honum innyflin og tálkn þannig að eftir stendur einungis búkur krabbans. Hin vélin vinnur kjötið úr búknum sem er hvítur vöðvi og verðmæt vara. Virkni búnaðarins lofar góðu og segir Davíð Freyr allt útlit fyrir að þessi þróunarvinna sé að takast.
„Á verkefnistímanum náum við að ljúka þessari vinnu þannig að vel verði.“
Núna snýst verkefnið um að geta nýtt búnaðinn til þess að vinna grjótkrabba af mörgum mismunandi stærðum, með mestri mögulegri nýtingu og af gæðum sem standast alþjóðlegan samanburð. Í þróun á nýjum fiskvinnslubúnaði er ávallt stefnt að sem mestum afköstum og sem mestri nýtingu á hráefninu. Það sama á við þessa nýju krabbavinnsluvél sem Royal Iceland er að þróa í samstarfi við Arkos.
Tækifæri fyrir minni og meðalstóra báta
„Við erum komnir langleiðina með að klára þetta verkefni og ég vona að í lok þessa árs verði því lokið. Þá verði komin vara á markað hér innanlands en einstaka veitingahús eru farin að kaupa krabbakjöt nú þegar. Ég á alveg eins von á því að næsta vetur verði kjöt úr grjótkrabba orðin vara sem verði komin í búðir fyrir íslenska neytendur.“
Royal Iceland er nú þegar farið að senda sýnishorn af vörunni á erlenda markaði til að fá viðbrögð og kanna enn frekar fýsileika vinnslunnar. Krabbakjöt er dýr vara en þó mismunandi eftir tegundum. Kjöt úr grjótkrabba er almennt talið af mjög háum gæðum. Markaðir fyrir kjöt úr töskukrabba eru mjög sterkir og norskir framleiðendur þess hafa sjálfir sagt kjöt úr grjótkrabba ívið betra.
Davíð Freyr segir að væntingar standi til þess að hægt verði að veiða á bilinu 500-1.000 tonn af grjótkrabba á ári við Ísland eftir nokkur ár. Afkastageta þeirrar vinnslu sem Royal Iceland hefur sett upp er um 1.000 tonn. Grjótkrabbi er veiddur síðsumars og fram á haust og standa vonir til þess að afli næstu vertíðar nái 100 tonnum. Allt ráðist þetta samt af því hve vel grjótkrabbinn hafi komið sér fyrir í vistkerfinu en hann fannst í fyrsta sinn við Ísland árið 2006 í Hvalfirði. Framhaldið á næstu árum ræðst svo af því hve margir séu tilbúnir til þess að taka þátt í veiðunum og hve mikið veiðiþolið verður á hverju svæði fyrir sig. Veiðarnar gætu orðið fyrirtaks viðbót inn í hefðbundna rekstrarflóru á litlum og meðalstórum bátum sem eru yfirleitt verkefnalitlir einmitt þegar veiðar á grjótkrabba fara fram.
Ný tækni stóreykur verðmætin
Aurora Seafood, fyrirtæki í eigu Davíðs Freys Jónssonar, í samstarfi við Curio hefur undanfarin þrjú ár unnið að þróun vélbúnaðar fyrir vinnslu á sæbjúgum. Aurora Seafood fékk styrk frá Evrópusambandinu 2017 til verkefnisins og nú er vélin fullsmíðuð og tilbúin til tilraunakeyrslu á næstu vertíð í sumar.

- Eftir vinnslu er sæbjúgað kannski ekki mikið fyrir augað en eftirsótt sjávarfang engu að síður. Aðsend mynd
Vélin endasker sæbjúgu á báðum endum, fjarlægir innyflin úr þeim og skilur kjötið frá skrápnum. Vélin hamflettir í raun sæbjúgun og skilur eftir vöðvann sem þenur út bjúgun og dregur þau saman sem gerir þeim kleift að hreyfa sig eftir sjávarbotninum. Undanliðin ár hefur þessi framleiðsla ekki farið fram hér enda launakostnaður hár og þessi vinnsla farið fram í höndum. Með þessari vél er vinnsla af þessu tagi því í fyrsta sinn vélvædd. Í vélinni er myndgreiningarbúnaður, þjarkabúnaður og öll önnur nýjasta tækni sem er almennt má finna í fiskvinnsluvélum af nýjustu og tæknilegustu gerð.
„Við höfum fram að þessu ekki náð því að vinna afurðir úr sæbjúgum á arðbæran hátt hér á Íslandi öruvísi en að vinna afurðir stutt eða þurrka þar sem vinnslukostnaður hefur verið hár, gæði á vörunni misjöfn og markaðir langt í burtu. Þar af leiðandi hefur meginþorrinn af sæbjúgnaaflanum farið tiltölulega lítið unninn inn á Kínamarkað. Þessi vél er viðleitni til þess að færa vinnsluna hingað heim og gera okkur kleift að breikka verulega kaupenda flóru sæbjúgnaafurða frá Íslandi“ segir Davíð Freyr.
Fæðubótarmarkaðurinn
Vonir standa til að vélin auki virðisaukann af sæbjúgnavinnslunni, breikki vöruúrvalið og samsetningu kaupendahópsins þegar farið verður að vinna afurðirnar í neytendapakkningar. Kaupendur sæbjúgnaafurða eru helst Kínverjar út um allan heim. Þeir eru eðli málsins samkvæmt flestir í Kína en gríðarlegur fjöldi þeirra býr víðs vegar í Evrópu og Bandaríkjunum. Kínverjar eru farnir að ferðast í auknum mæli.
„Neysla á sæbjúgum hefur verið að breiðast út og þá áhugavert hefur verið að fylgjast með aukningunni inn á fæðubótamarkaðinn bæði hér á Íslandi og nærliggjandi löndum. Unnin hafa verið fæðubótarefni úr sæbjúgum sem hafa verið möluð í duft. Í duftinu er mörg bætiefni sem vaxandi eftirspurn er eftir. Með vélinni sem við höfum þróað og smíðað getum við framleitt vöru sem eru sérsniðnar inn á þessa markaði fyrir fæðubótarefni, veitingastaði og neytendamarkað. Vinnslan opnar okkur t.d. leið inn til Suður-Kóreu sem er nokkuð stór markaður sem við höfum ekki náð að komast inn á í langan tíma. Suður-Kóreumenn kaupa mun síður heil sæbjúgu,“ segir Davíð Freyr.
Sem fyrr segir hefur megnið af sæbjúgum af Íslandsmiðum farið því sem næst óunninn inn á Kínamarkað. Með nýju vinnsluaðferðinni standa vonir til þess að útflutningsverðmæti á þessari tegund geti hækkað um 30-50%. Kosturinn við nýju vélina er einnig sá að hún er að miklu leyti sjálfvirk sem gefur væntingar um að vinnslukostnaður vaxi umtalsvert minna en verðmætaaukning. Þar með yrði til góð framlegð fyrir framleiðendur og sjómenn á Íslandi.
„Elliði Hreinson hjá Curio hefur leitt með okkur þróunarvinnuna og er nú svo komið að búið er að smíða alla íhluti og setja vélina saman og fyrstu prufukeyrslur fóru fram í fyrravor og sumar. Talsvert ferli er þó framundan að fínstilla vélbúnaðinn og slípa vinnsluna til áður en hún kemst á iðnaðar mælikvarða.
Umfjöllunin birtist upphaflega í nýsköpunarblaði Fiskifrétta 17. febrúar sl.