Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi til Rússlands, að niðursoðinni þorskalifur undanskilinni, hefur legið niðri í sex ár en á sama tíma hafa íslensk tæknifyrirtæki haslað sér þar eftirminnilega völl. Nægir að nefna skipahönnun Nautic fyrir rússneskar útgerðir og vélar og hátæknibúnað og jafnvel heilu verksmiðjurnar frá fyrirtækjum eins og Marel, Völku, Skaganum 3X, Frost, Rafeyri, Kapp og fleirum.

Í ágúst 2015 bættist Ísland á lista ríkja sem mega þola innflutningsbann á matvælum til Rússlands.  Ástæðan er stuðningur Íslands við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Kanada gegn Rússlandi vegna hernaðaraðgerða Rússa í Úkraínu. Fyrir tíma innflutningsbannsins hafði Rússland verið mikilvægur markaður fyrir uppsjávarfisk. Bannið náði til 90% af heildarútflutningi vöru frá Íslandi til Rússlands og reyndist mun þyngra högg fyrir landið en fyrir aðrar þjóðir sem sæta sams konar höftum. Árni Þór segir að staðan sé óbreytt í þessum málum. Lítið muni breytist nema stóru aðilarnir, þ.e. Evrópusambandið og Bandaríkin, ákveði með einhverjum hætti að þoka málum áfram.

Viðkvæmt mál uppi á borðum

„Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og að Atlantshafsbandalaginu og höfum fylgt þeim að málum. Ég sé varla fyrir mér að Ísland taki sjálfstæða ákvörðun um að rjúfa þessa samstöðu. En því ber ekki að neita að þessi mál koma ávallt til umræðu á tvíhliða fundum landanna. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, var hér síðast í maí og þar var þetta til umræðu. Rússar hafa markað mjög ákveðna línu í þessum efnum og segja að Íslendingar verði að taka fyrsta skrefið í þá átt að losa um viðskiptin. En það sem hefur gerst í Rússlandi og er mjög athyglisvert er að þrátt fyrir innflutningsbann á sjávarafurðir þá hafa önnur íslensk fyrirtæki í sjávarútvegstengdri starfsemi komið ár sinni vel fyrir borð í Rússlandi. Í lok júní kom forseti Alþingis ásamt sendinefnd til Rússlands og við fórum meðal annars til Pétursborgar og skoðuðum þar íslenska skipahönnunarfyrirtækið Nautic-Rus. Sendinefndin hreifst mjög af starfseminni þar og því að þarna væri stórt íslenskt fyrirtæki að uppruna í raun og veru með 50-60 manns í vinnu. Þessu vita ekki allir af hérna á Íslandi og jafnvel sumir í sendinefndinni höfðu ekki heyrt af þessu,“ segir Árni Þór.

Íslenska útrásin

Útrás íslenskra hátæknifyrirtækja til Rússlands hefur vakið athygli og Fiskifréttir fjallað ítarlega um hana. Þar hefur þáttur Knarr verið stór. Knarr er markaðsarmur sex íslenskra hátæknifyrirtækja. Þau eru Brimrún, Frost, NaustMarine, Nautic, Skaginn 3X, sem nú er reyndar hluti Baader, og Skipatækni. Berglind Ásgeirsdóttir, fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, sem Árni Þór leysti af hólmi seint á síðasta ári, hafði reynst íslenskum fyrirtækjum mikill haukur í horni og opnað margar dyr sem áður voru lokaðar. Árni Þór hefur nú tekið við keflinu og segir mörg önnur tækifæri og viðfangsefni blasa við. Rússland sé þó ekki auðveldur markaður og stundum geti kerfið þar verið þungt í vöfum. Engu að síður hafi íslensk fyrirtæki gert sig gildandi í sjávarútvegstengdri starfsemi í þessu víðfeðma landi.

„Murmansk er stór sjávarútvegsborg og þar þjónusta mörg íslensk fyrirtæki sjávarútveginn. Þau annast líka þjónustu með viðhaldi og varahlutum. Þar hefur komið upp umræða meðal fulltrúa þeirra rússnesku fyrirtækja sem skipta við íslensku fyrirtækin að þau þurfi að vera á staðnum með einhvers konar þjónustumiðstöð. Aðkoma íslensku fyrirtækjanna sé orðin það umfangsmikil og það geti verið dálítið umhendis að senda sérfræðinga frá Íslandi til Murmansk. Íslensk fyrirtæki hafa líka látið að sér kveða á austurströnd Rússlands þar sem fjarlægðirnar eru enn meiri.“

Þunga höggið

Árni Þór segir að auk tækifæra innan sjávarútvegsins hafi íslensk fjártækni- og orkufyrirtæki leitað hófanna í Rússlandi og öðrum löndum sem eru í umdæmi sendiráðsins í Moskvu, sem eru Armenía, Aserbaísjan, Hvíta-Rússland, Kasakstan, Kirgistan, Moldóva, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.

Árni Þór segir að þrátt fyrir þetta sé innflutningsbann á sjávarafurðir frá Íslandi auðvitað ennþá stóra málið. Það hafi verið þungt högg fyrir Ísland.

„Viðskiptaþvinganirnar þýddu 95% samdrátt í viðskiptum við Rússland. Við vorum fyrst og fremst að selja Rússum fisk. En svo breytist þetta með tilkomu íslensku tæknifyrirtækjanna en það er langt frá því að jafnvægi hafi náðst í þessum viðskiptum.“

Um svipað leyti og rússnesk stjórnvöld settu innflutningsbann á þær þjóðir sem studdu viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna, ESB og Kanada árið 2015 mörkuðu þau sér einnig þá stefnu að landið yrði sjálfu sér nægt í matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum. Þessari stefnu hafa Rússar fylgt fast eftir.

„Það má segja að íslensku hátæknifyrirtækin hafi notið góðs af þessari stefnu. Þegar fiskiskipafloti Rússa frá þessum árum er skoðaður kemur í ljós að hann var mjög gamall og úr sér genginn. En þeir hafa farið af krafti í að endurnýja fiskiskipaflotann og þá opnast tækifæri fyrir fyrirtæki eins og Nautic með sína þekkingu. Nautic er núna með hönnun á níu eða tíu togurum fyrir Norebo og önnur fjögur línuskip fyrir sömu útgerð. Ég myndi samt ekki telja að útflutningsmarkaður fyrir sjávarafurðir til Rússlands sé að eilífu glataður. Það gætu til að mynda verið tækifæri fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki með framleiðslu á sælkeramat úr hágæða hráefnum. Ekki einungis í Rússlandi heldur líka öðrum löndum í umdæmi sendiráðsins, eins og Armeníu, Kasakstan og víðar þar sem engin innflutningshöft eru. Það er svo sem ekkert útlit fyrir það í bráð að það opnist fyrir útflutning til Rússlands en slíkir hlutir geta gerst hratt þegar þeir á annað borð gerast.“

Hann bendir á að ennþá megi flytja út niðursoðna þorsklifur. Þetta sé mjög sértæk vara sem rík neysluhefð er fyrir í Rússlandi. Ekki sé víst að Rússar finni þessa vöru annars staðar. Sama gildi um loðnu. Það kæmi sér vel fyrir íslensk uppsjávarfyrirtæki ef hægt væri að opna fyrir útflutning á loðnu því Íslendingar voru nánast þeir einu sem höfðu náð markaðsstöðu með loðnu í Rússlandi. Spurningin nú sé hvort unnt sé að vinna afmörkuð mál af þessu tagi áfram þannig að það myndist hugsanlega einhver glufa. Það gæti skipt miklu máli. En slíkt sé alltaf pólitískt mat á hverjum tíma.

Viðtalið birtist upphaflega í Tímariti Fiskifrétta 2021