Ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar um að afnema styrk til selveiða að fjárhæð rúmlega 200 milljóna íslenskra króna hefur sætt harðri gagnrýni af hálfu talsmanna sjávarútvegsins í Noregi. Styrkurinn nemur um 80% af veltu selaiðnaðarins og án hans eru selveiðar Norðmanna sagðar úr sögunni.
Þegar selveiðar Norðmanna stóðu sem hæst stunduðu um 100 skip veiðarnar en á síðustu árum hefur þeim fækkað mjög. Í fyrra voru selveiðiskipin aðeins þrjú og veiðin nam um 12.000 dýrum, en veiðisvæðið er í Vesturísnum svokallaða djúpt norður af Íslandi milli Jan Mayen og Grænlands.
Þeir sem gagnrýna stjórnvöld fyrir að afnema selaveiðistyrkinn saka þau um að beygja sig fyrir kröfum Evrópusambandsins og dýraverndunarsamtaka sem barist hafi gegn selveiðum. Þá horfi stjórnvöld einnig framhjá því að selveiðarnar séu þáttur í athafnasemi og viðveru Norðmanna á norðurslóðum og ef selveiðarnar leggist af veiki það utanríkispólitíska stöðu Noregs í viðræðum um yfirráð á þessu svæði.
Stjórnvöld hafna því að afnám styrksins hafi eitthvað með þrýsting frá ESB eða dýraverndunarsamtökum að gera, ákvörðunin sé tekin af hreinum fjárhagslegum ástæðum. Þá er jafnframt vísað í álit norsku hafrannsóknastofnunarinnar þess efnis að selveiðar Norðmanna séu svo litlar að þær hafi engin teljandi áhrif á vöxt og viðgang vöðuselastofnsins. Þau viðhorf að halda þurfi áfram selveiðum af vistfræðilegum ástæðum séu því á undanhaldi.