Sjómenn í Rødvig í suðurhluta Sjálands í Danmörk hafa orðið fyrir því að selurinn étur meirihluta aflans í netunum. Sjómennirnir óttast afleiðingarnar og vilja að selastofninum verði haldið í skefjum, að því er fram kemur á vef TV 2.
,,Selurinn bítur á kvið fisksins og dregur innvolsið út. Í dag fengum við um 100 kílóa afla en 175 kíló voru eyðilögð. Þetta er tjón upp á 1.500 krónur (33 þúsund ISK),“ er haft eftir einum fiskimanni. Hann bætir því við að ef fram fer sem horfir þá geti hann ekki lifað á netaveiðum.
Það er ekki aðeins í Rødvig og í Eystrasalti sem selir eru til vandræða við netaveiðar. Selurinn var friðaður árið 1997 og hefur stofninn vaxið mikið síðan. Árið 1977 voru selirnir aðeins 2.000 en í dag eru þeir um 20.000.
Forsvarsmenn danskra fiskimanna segja að selir hafi valdið skaða við fiskveiðar í mörg ár en á allra síðustu árum hafi vandinn aukist það mikið að selurinn ógni lífsafkomu sjómanna. Því sé nauðsynlegt að minnka stærð selastofnsins.