Danskir fiskimenn hafa miklar áhyggjur af sífellt aukinni útselagengd í Eystrasalti sem þeir segja að ógni lífsafkomu sinni. Í yfirlýsingu frá Samtökum danskra fiskimanna segir að útselurinn skapi ekki lengur minniháttar óþægindi eins og áður var, heldur hafi fjölgun hans á síðustu árum leitt til þess að sífellt erfiðara verði fyrir fiskimennina að láta enda ná saman í útgerð sinni.
Verst sé ástandið á miðunum í kringum Borgundarhólm og úti af Suður-Sjálandi en í raun sé selavandinn alls staðar tilfinnanlegur. Ástandinu er lýst þannig að selurinn éti þorskinn beint úr netunum eða geri aflann óseljanlegan auk þess sem hann valdi skaða á veiðarfærunum og hræði fiskinn burt af góðum fiskimiðum.
Fullyrt er að selir hirði 60-70% af þorski úr netum við Suður-Sjáland eða bíti fiskinn þannig að hann sé ekki söluvara lengur.
Samtök danskra fiskimanna hafa hvatt danska matvælaráðherrann , Mette Gjerskov, til að grípa til ráðstafana gegn selaplágunni.