Espersen, einn fremsti þorskframleiðandi heims, handsalaði kaup á FleXicut vatnsskurðarvél frá Marel strax á fyrsta degi sjávarútvegssýningarinnar í Brussel. Kaup á FleXicut er því mikilvægt skref í átt að aukinni sjálfvirknivæðingu hjá félaginu, að því er fram kemur í frétt frá Marel.

Espersen starfrækir vinnslustöðvar í Litháen, Póllandi, Rússlandi og Asíu. FleXicut verður sett upp í fiskvinnslustöð þeirra í Litháen strax að sýningu lokinni og er ráðgert að vinnsla með vélinni geti hafist innan tveggja vikna.

FleXicut hefur markað mikilvægt skref í nýrri kynslóð vinnslulína fyrir hvítfisk, en með tilkomu hennar hefur mannfrekt ferli við beingarðsskurð verið vélvætt sem umbyltir hvítfiskvinnslu. FleXicut vatnsskurðarvélin notar háþróaða röntgentækni til að greina og staðsetja beingarð í ferskum þorski, ýsu og karfaflökum, sker svo beingarðinn burt með vatnsskurði af mikilli nákvæmni og hlutar flakið niður í bita eftir ákveðnum skurðarmynstrum.