Útgerð færeyska togarans Akrabergs hefur fallist á að greiða jafnvirði 7,8 milljóna íslenskra króna fyrir að „blaka út“ fiski eins og það er orðað á vef færeyska útvarpsins. Þá fékk skipstjórinn sekt upp á rúma hálfa milljón íslenskra króna fyrir sömu sakir.

Í fréttinni segir að þegar menn af strandgæsluskipinu Nordkapp hafi farið um borð í Akrabergið hafi þeir orðið vitni að brottkasti á þilfari sem hefði haldið áfram eftir að komið var niður á vinnsluþilfarið.

Eftir að sett hafði verið bankatrygging fyrir þessum fjármunum gat skipið haldið áfram veiðum í norskri lögsögu.