Norsk útgerð hefur gert samning við bátasmiðjuna Seiglu á Akureyri um smíði á stærsta 15 metra smábátnum sem smíðaður hefur verið á Íslandi til þessa. Hann verður 8 metra breiður.

Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi fjallar um bátinn í dag og fullyrðir að þetta sé öflugasti smábátur í heimi. Bent er á að hann verði með línuvélakerfi frá Mustad með 50.000 krókum sem sé álíka mikið og hefðbundnir beitningarvélabátar í Noregi séu með.

Lestin í bátnum er 120 rúmmetrar og verður í henni hægt að flytja lifandi fisk. Fram kemur í blaðinu að lestin taki annars rúmlega 80 tonn af fiski. Báturinn verður búinn öllum nýjustu tækjum í stýrishúsi og til aflameðferðar og pláss verður fyrir átta manns í áhöfn.

Ekki hefur verið uppgefið hver norski kaupandinn er, en gert er ráð fyrir að afhenda bátinn seint á næsta ári.