Bæjarráð Vestmannaeyja hefur lýst vonbrigðum með að dýpkun Landeyjahafnar sé enn og aftur ekki sinnt eins og sífellt sé lofað. Þetta kemur fram í bókun í bæjarráðinu.

„Sú staða sem upp kom í lok október, og varir enn, sýnir enn og aftur mikilvægi þess að á haustin sé dýpkunarskip til staðar með skömmum fyrirvara til þess að halda höfninni opinni,“ segir bæjarráðið. Í ljósi þess að ekki hafi verið hægt að halda úti áætlun í Landeyjarhöfn í haust, sé enn mikilvægara að áætlunarflugi verði komið á til Vestmannaeyja.

„Nú eru liðnar fjórar vikur frá því að bæjarstjóri sendi fyrir hönd bæjarráðs erindi til innviðaráðuneytisins varðandi ríkisstuðning við áætlunarflug til Vestmannaeyja. Engin formleg svör hafa enn borist frá ráðuneytinu,“ segir bæjarráð sem kveðst gagnrýna að ekki sé komið á áætlunarflug til Vestmannaeyja.

„Ekki hefur vantað jákvæðni frá þingmönnum og ráðherrum gagnvart áætlunarflugi til Vestmannaeyja í samtölum, nú er komið að því að efna loforðin,“ bókar bæjarráð Vestmannaeyja.