Hinar árlegu viðræður strandríkjanna um veiðar úr deilistofnunum þremur, makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld, eru að hefjast í London á næstu dögum. Á föstudaginn verða kolmunni og síld á dagskránni, en eftir helgi mun vera komið að makrílnum.

Mörg undanfarin ár hafa þessar viðræður skilað litlum árangri. Enda þótt ríkin séu sammála um að fara eftir fiskveiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), þá hafa þau ekki getað komið sér saman um skiptingu veiðanna sín á milli.

Óvenju mikil áhersla hefur verið á makrílviðræðurnar þetta árið, sem bendir til þess að viljinn til þess að ná árangri sé kannski eitthvað meiri en áður. Fiskifréttir spurðu Matvælaráðuneytið hverju sætti, og fengu þau svör að eftir Brexit hafi Bretar viljað formennsku í makrílviðræðunum og keyri þær áfram.

„Það er eðlilegt þar sem þeir eru stærsti hagsmunaaðilinn í makríl og hafa mest að vinna – en einnig mestu að tapa. Formennska þeirra mun standa yfir a.m.k. þar til fullreynt hefur verið að semja um veiðiárið 2023,“ segir í skriflegu svari frá ráðuneytinu.

Sjötta strandríkið

„Hlutasamkomulagið sem var í gildi frá 2014-2020 milli Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja, hélt ekki eftir Brexit. Bretland varð þá sjötta strandríkið og vildi jafnframt taka við formennsku í samningaviðræðum um makríl.“

Þeir hafa boðað til margra samningafunda á Bretlandseyjum og einn fundur var haldinn á Íslandi í september. Sem fyrr segir verður næsti fundur nú fljótlega og ráðuneytið segir ekki útilokað að boðað verði til fleiri funda fyrir árslok.

„Fundirnir í ár hafa verið misgjöfulir en mikil áhersla er lögð á að ná heildstæðum samningi fyrir árslok meðal strandríkjanna sex. Nokkuð langt er enn á milli viðsemjenda en hjólin snúast hratt þessa dagana og það er a.m.k. vísbending um að verið sé að kanna allar mögulegar leiðir til að ná saman,“ segir ráðuneytið.

Íslensk stjórnvöld segjast vongóð um að samkomulag um sjálfbæra veiði makríls náist.

„Ísland mætir til allra funda með samningsviljann að leiðarljósi. Makríll er okkur mjög mikilvægur og sú áhætta sem nú er tekin með endurtekinni ofveiði ríkjanna er að mati íslenskra stjórnvalda óásættanleg. Afkoma okkar allra er mun betur tryggð til lengri tíma ef okkur tekst að semja um skiptingu veiðiheimilda innan ráðgjafar.“

Hver í sínum stofni

Eðlilegt sé að stærstu hagsmunaaðilarnir beri mesta ábyrgð á því að „finna lausn í sínum stofni, þ.e. Bretland í makrílnum, Noregur í norsk-íslensku síldinni og Evrópusambandið í kolmunnanum. Áherslan hefur verið á makríl þetta árið og við höldum í vonina um það að ef okkur tekst að ná saman á þeim vettvangi, þá sé hægt að nálgast lausn í hinum tveimur stofnunum með sambærilegum hætti.“

Ísland er strandríki í öllum þremur stofnunum og hefur talað fyrir því að rætt sé um þá „samhliða svo hægt sé að veita meira svigrúm til samninga innan hvers og eins stofns. Við teljum enn að sú leið væri æskileg en eins og staðan er núna er samið um þá sitt í hvoru lagi.“

Undanfarin ár hafa strandríkin komið sér saman um að miða heildarveiði úr makrílstofninum við ráðgjöfina frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), en ekkert samkomulag hefur verið um hvernig þau ætli að skipta heildaraflanum á milli sín. Þess í stað hafa þau tekið sér einhliða kvóta, hvert fyrir sig, með þeim afleiðingum að samtals hafa þau veitt töluvert meira en ráðgjöfin segir til um.

Árið 2020 nam heildarveiðin 120 prósentum af ráðgjöfinni, og árið 2021 varð hún rúm 140%. Umframveiðin árið 2020 nam 182 þúsund tonnum og 2021 nam hún 354 þúsund tonnum.