Greint er frá því á vef Bændablaðsins, www.bbl.is , að 300 tonn af laxi, sem sagður er vera frá Skinney-Þinganesi, hafi verið fluttur ólöglega frá Evrópu til Rússlands í gegnum Eistland. Merkingar og heilbrigðisvottorð sendinganna séu fölsuð. Bændablaðið hefur undir höndum fréttabréf rússneska matvælaeftirlitins í þýðingu. Í því kemur fram að Matvælaeftirlit Rússlands telji að laxinn sé upprunninn í Evrópu.

Skinney-Þinganes flytur talsvert af uppsjávarafurðum til Rússlands en stundar ekki laxeldi né útflutning á lax. Bændablaðið hafði það eftir talsmönnum Skinney-Þinganess að þar hefðu menn ekkert heyrt um þetta mál.

Talið er að þeir sem stóðu að baki útflutningnum  til Rússlands hafi notfært sér nafn íslensks fyrirtækis til að komast í kringum innflutningsbann Rússa á vörum frá Evrópusambandinu og Noregi en Ísland er undanþegið því banni.

Í umfjöllun Bændablaðsins kemur fram að eftirlitsnefnd frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Kasakstan sé hér á landi til að gera úttekt á fisk-, kjöt- og mjólkurframleiðslu með það í huga að Íslendingar fái leyfi til að flytja vörur sínar til Tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan.

Tíu úttektarmenn frá Tollabandalaginu hafa heimsótt íslensk fiskvinnslufyrirtæki, sláturhús, mjólkurstöðvar, fiskeldisstöðvar, svínabú og sauðfjárbú. Einnig heimsótti hópurinn rannsóknastofur og skoðaði framkvæmd við útgáfu heilbrigðisvottorða hjá Matvælastofnun.

Uppfært 20. nóv. kl. 16:00

Fölsun á vottorðum

Fréttatilkynning frá Matvælastofnun um fölsunarmálið:

"Í ljós hefur komið fölsun á vottorðum sem framvísað hefur verið á síðustu mánuðum við innflutning á laxi við landamæri Rússlands. Vörunum fylgdu vottorð sem gáfu til kynna að laxinn væri frá Íslandi og framleiddur af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Matvælastofnun hefur fengið tvö vottorð til skoðunar og hefur staðfest gagnvart rússneskum yfirvöldum að þau eru fölsuð.

Á þessu stigi málsins er óljóst frá hvaða ríki eða framleiðanda þessar vörur koma, en Matvælastofnun og systurstofnun hennar í Rússlandi munu áfram vinna að því að afla frekari upplýsinga. Ekkert hefur komið fram sem tengir íslensk fyrirtæki við fölsun þessara vottorða.

Um er að ræða sendingar af eldislaxi til Rússlands í haust og hafa sumar þeirra komið til skoðunar á landamærastöðvum þar á síðustu dögum. Á fölsuð heilbrigðisvottorð sem hafa fylgt vörunum er skráð heiti Matvælastofnunar ásamt samþykkisnúmeri og heiti íslenskra fyrirtækja. Vottorðin sem um ræðir eru ekki í samræmi við samþykkt heilbrigðisvottorð Matvælastofnunar og voru ekki gefin út af henni. Hlutaðeigandi fyrirtæki hafa einnig staðfest að þau framleiða ekki eða flytja út lax til Rússlands."