Umhverfisráðuneytið í Kólumbíu hefur lagt fram áætlun um að takmarka fjölda og útbreiðslu eldfisks (lat.: Pterois volitans ). Um er að ræða framandi fisk úr Indlandshafi en fyrst varð vart við hann í lögsögu Kólumbíu árið 2008.

Eldfiskurinn er talinn vera mikill skaðræðisfiskur sem ógnar lífríki sjávar og jafvægi í vistkerfinu. Eldfiskurinn er ekki stór en samkvæmt rannsóknum þá hverfa 80% af smærri fiski af þeim svæðum sem hann leggur undir sig. Auk þess étur eldfiskurinn krabba, humar og snigla og tekur því fæðu frá öðrum verðmætum nytjategundum.

Umhverfisráðuneytið segir að stjórnvöld verði að treysta á það að fiskimenn, veitingahús og allur almenningur taki höndum saman til að halda þessum ágenga nýbúa í skefjum. Talið er að eldfiskurinn sé ágætur matfiskur og með því að veiða hann megi skapa jafnvægi í lífríki sjávar.

Eldfiskurinn er plága víða í Mið-Ameríku og Karabíska hafinu.

Fis.com greindi frá.