Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segir ljóst að ef stefna ríkisstjórnarinnar um að tryggja 48 daga strandveiði gangi eftir þurfi að auka aflaheimildir í þessum útgerðarflokki.

„Það gefur auga leið,“ segir Kjartan. „Við höfum ekki fengið þessa 48 daga vegna þess að heimildirnar hafa ekki dugað. Á móti kemur að við erum að tala um svo lágar tölur að það ætti ekki að vera mikið vandamál að hliðra eitthvað til og finna þær. Við erum að tala um örfá þúsund tonn. Bjarna Benediktssyni og Jóni Gunnarssyni tókst á milli jóla og nýárs að henda inn 3.800 djúpkarfakvóta fram yfir núllráðgjöf þannig að það er alveg hægt að finna einhverja lausn.“

Að sögn Kjartans liggur fyrir að eftir sé að útfæra markmið ríkisstjórnarinnar og að gefa þurfi henni svigrúm til þess. „Það er allt í lagi að setja sér markmið og finna síðan leiðir til að vinna að því markmiði. Þetta er að minnsta kosti rétt nálgun. Þetta er það sem við höfum verið að berjast fyrir og vonandi er það komið í höfn,“ segir hann.

Rógburður og lygi

Kjartan gefur lítið fyrir harða gagnrýni fulltrúa stórútgerðarinnar á stefnu nýrrar ríkisstjórnar varðandi strandveiðar og gagnrýni á að strandveiðar skuli yfirhöfuð vera stundaðar því þær séu óhagkvæmar. Hann segir að þar sé farið með ósannindi og nefnir sem dæmi orð Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á Bylgjunni síðastliðinn sunnudag.

„Hún sagði að afkoman væri léleg í strandveiðum og afkoman hefði verið neikvæð árið 2022. Þetta er bara lygi,“ segir Kjartan. Heiðrún hafi vitnað til skýrslu sem Auðlindin okkar hafi fengið Svein Agnarsson og Vífil Karlsson til að skrifa um afkomu ólíkra útgerðarforma.

„Niðurstaðan í þeirri skýrslu var að afkoman í strandveiðum væri ásættanleg þótt hún væri lakari en hjá stóru útgerðinni,“ segir Kjartan. Heiðrún hafi hins vegar byggt málflutning sinn á „gerviforsendum“ sem skýrsluhöfundarnir settu fram en séu ekki í raun til staðar. „Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en rógburð og lygi.“

Stórútgerðin tapi rökræðunni

Kjartan segir stórútgerðina hamra á því að strandveiðar séu efnahagsleg sóun því það sé síðasta vígi þeirra í umræðunni.

„Við erum búin að vinna rökræðurnar í sambandi við bæði byggðaþróun og umhverfið og náttúruna. Þau eru eiginlega búin að gefa þetta upp á bátinn en hanga eins og hundar á roði í þessari hagkvæmnispælingu. En nú er þau að tapa henni líka vegna þess að við erum að selja okkar fisk á tuttugu prósenta hærra verði,“ segir Kjartan. Þótt arðsemin sem slík sé lægri í strandveiðunum en hjá stórútgerðinni dreifist tekjurnar af strandveiðinni á fleiri.  „Það er munurinn. Auðurinn dreifist miklu betur hjá okkur heldur en hjá stórútgerðinni, hann ratar í fleiri vasa.“

Nú segir Kjartan að sjá þurfi hvernig málið þróist.

Ætli að sprengja kerfið

„Ég hef engar sérstakar áhyggjur af ríkisstjórninni, ég held að hún sé algjörlega í þessu af heilum hug og vilji láta dæmið ganga upp. En ég hef svolitlar áhyggjur af því að stórúgerðin fari í einhvers konar skemmdarverkahernað til að reyna að grafa einhvern veginn undan kerfinu. Maður er búinn að heyra sögur af fólki sem hefur farið að kaupa fullt af bátum til að henda fleiri bátum inn í kerfið og segja svo: Kerfið bara sprakk,“ segir Kjartan

Þetta ferli fullyrðir Kjartan að þegar sé komið í gang þótt hann vilji ekki nefna nein dæmi opinberlega.

„Ég veit ekki hvernig þeir ætla að fara að þessu vegna þess að við ætlum að skrúfa fyrir það að eigandi sé ekki sá sem er að róa,“ segir Kjartan. „Við eigum von á ýmsu og maður er skíthræddur um hverju þetta fólk ætlar að taka upp á, vegna þess að það er svo óforskammað og óprúttið.“