Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, segir eðlilegt að ræða um gjaldtöku af ýmsum auðlindum en kveður engan skort á á sjónarmiðum um að í sjávarútvegi séu óþrjótandi lendur til frekari skattheimtu.

Um þetta ritar Heiðrún í pistli á vef SFS undir yfirskriftinni Þrífætta svínið og auðlindarentan. Bendir hún á að um helgina sé gengið til þingkosninga.

„Eðli máls samkvæmt hafa hinir ýmsu flokkar hugmyndir um hvernig hámarka megi verðmæti sjávarauðlindarinnar fyrir þjóðarhag. Fæstir hafa þó kynnt ítarlegar útfærslur,“ skrifar Heiðrún.

Segir hugmyndir formanns Samfylkingar vera þokukenndar

„Hugmyndir formanns Samfylkingarinnar hafa verið nokkuð áberandi umliðnar vikur. Formaðurinn hefur sagt að hann vilji tvöfalda veiðigjaldið á átta til tíu árum. Með slíkum áformum segist formaðurinn vilja draga úr óvissu sem sjávarútvegur hefur þurft að búa við vegna orðræðu stjórnmálamanna um kerfisbreytingar. Þessi hugsun er mjög virðingarverð. Og það má meira að segja hugsa sér framtíð þar sem veiðigjaldið skilar tvöfalt meiri tekjum til ríkisins en það gerir í dag. Það sem hins vegar öllu máli skiptir er leiðin að því markmiði en þar verða hugmyndir formannsins heldur þokukenndar. Óvissan fyrir atvinnugreinina er því í raun engu minni,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hugtakið auðlindarenta skipti ekki máli

„Hugmyndir Samfylkingarinnar virðast fyrst og síðast byggjast á þeirri forsendu að til staðar sé auðlindarenta í sjávarútvegi, sem ekki er skattlögð nú þegar,“ heldur Heiðrún áfram. „Það er því ágætt að hugleiða hugtakið auðlindarenta aðeins nánar, enda virðist formanninum sárna að atvinnugreinin skuli treglega viðurkenna tilvist hennar.“

Fjallar Heiðrún síðan um auðlindarentu sem hagfræðilegt hugtak og vandann við að reikna hana út. Segir hún ljóst að skattlagning auðlindarentu sem byggir á óljósum og jafnvel matskenndum forsendum sé ekki skynsamleg. Það sæti furðu hversu mikla áherslu formaður Samfylkingarinnar og fleiri leggi á hugtakið sem slíkt því þð skipti í raun óverulegu máli og aldrei muni fást endanleg og vísindalega sönnuð niðurstaða um hana.

Mikil vanþekking og upphrópanir

„Því miður hefur umræða um auðlindarentu og auðlindagjald í sjávarútvegi oft og tíðum byggst á milli vanþekkingu og upphrópunum. Það má vona að það breytist og umræðan dýpki, þó það hafi ekki gerst nú fyrir kosningar. Það vakti meðal annars undrun þegar formaður Samfylkingarinnar staðhæfði í viðtali að auðlindarenta væri vísindalega sönnuð og skattlagning hennar hefði engin áhrif á framleiðni eða samkeppnishæfni greinarinnar að öðru leyti. Það er hagfræðileg kenning sem ekki hefur heyrst áður, að ég tel. Og hún stenst auðvitað ekki skoðun,“ segir Heiðrún og fjallar áfram ítarlega um málið og bætir síðan í endann við dæmisögu af þrífættu svíni.

Þrífætta svínið

„Það má kannski að lokum viðurkenna að við orðræðu sumra frambjóðenda og flokka í aðdraganda kosninga nú, þá hefur ágætri dæmisögu um svín eitt á bóndabæ skotið upp í kollinum á mér. Hún getur vonandi orðið að hugvekju fyrir þá frambjóðendur sem brátt taka sæti á Alþingi.

Einu sinni var maður sem kom á bóndabæ og sá þar þrífætt svín. Honum fannst þetta mjög merkilegt og spurði bóndann hvernig stæði á þessu.

„Já, svínið. Hann er ótrúlegur. Hann er arkitekt og hefur teiknað allar viðbyggingarnar við bæinn hjá mér og allar lagnir. Svo er hann líka fínasti rafvirki.“

„En af hverju er hann þrífættur?“

„Já, og svo er hann líka fyrirtaks kokkur. Eldar matinn fyrir okkur á hverju kvöldi og gengur frá. Svo er hann líka frábær í að passa börn og sjá til þess að allt sé í standi á heimilinu.“

„Já, en hvernig missti hann fótinn?“

„Já, og svo hefur hann líka verið að hjálpa krökkunum við heimanámið og talar fjögur tungumál.“

„Já, en hvernig missti hann fótinn?“

„Jú, sjáðu til. Þegar maður á svona svín, þá borðar maður það ekki allt í einu,“ skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í pistli sínum sem lesa má í heild á vef samtakanna.