„Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri síðasti dagur inn  í dag. Það er einhver séns að við fáum morgundaginn líka en svo er það alveg pottþétt búið eftir það,“ sagði Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, í gær.

Fiskistofa boðaði síðastliðinn föstudag að allar líkur væru á að strandveiðar yrðu stöðvaðar í þessari viku enda kvótinn að klárast. Um 400 tonn veiddust á mánudag og því aðeins tæplega 500 tonn eftir í byrjun dags í gær.

Skömmu eftir að Fiskifréttir ræddu við Kjartan og blaðið var farið í prent kom tilkynning frá Fiskistofu um að dagurinn í gær yrði sá síðasti á strandveiðunum í ár enda fyrirsjáanlegt að úthlutunin til þessara veiða myndi klárast.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu héldu um fimm hundruð strandveiðibátar til veiða í gærmorgun. „Það eru allir og amma þeirra að róa í dag. Það ætla allir að nota hverja einustu mínútu,“ sagði Kjartan sem sjálfur var á Breiðafirði að leita að fiski.

Viðbótin hvergi nærri nóg

Að sögn Kjartans gekk sumarið vel hjá flestum. Tvö þúsund tonn sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hafi bætt við upphaflegan tíu þúsund tonna pott hafi hjálpað til þótt það hafi gert takmarkað gagn á C-svæðinu á Norðausturlandi.

„Það er reyndar skilst mér búið að ganga ágætlega á C-svæði í sumar þannig að það hefur reddast en það er helmingurinn af júlí og allur ágúst eftir og það er besti tíminn á þeirra svæði. Þannig að þetta hjálpaði en hvergi nærri nóg,“ sagði Kjartan. Viðbótin hafi þó verið mjög velkomin.

„Ég þykist vita það að það hafi verið þjarmað illilega að henni Bjarkeyju að gera þetta ekki. Ég veit að það var gert í fyrra við Svandísi [Svavarsdóttur, fyrrverandi matvælaráðherra] og hún lúffaði en Bjarkey lúffaði ekki og við erum mjög þakklátir því,“ sagði formaðurinn sem kvaðst túlka þetta útspil þannig að ráðherrann sé tilbúin til að standa með strand veiðimönnum.

Bjartsýnn á samstarf við ráðherra

„Þessi vertíð fór eins og hún fór en nú þurfum við að horfa fram á veginn og ég er bara bjartsýnn á að við náum að vinna með Bjarkeyju til að gera kerfið mannsæmandi fyrir næsta sumar,“ sagði Kjartan.

Þótt þorskurinn í sumar hafi verið góður og fiskeríið gott sagði Kjartan hræðilegt veður á Vesturlandi hafa sett strik í reikninginn.

„Það fóru alltof margir dagar í að vera uppi í fjöru í smáfiski,“ sagði Kjartan. Menn vilji síður lengra út á sjó í tvísýnu veðri til að ná í stærri fisk. „Ef við fengjum aðeins meira svigrúm og fleiri daga að velja um þá hefði þetta verið svolítið öðruvísi.“