Mannbjörg varð þegar lítill fiskibátur strandaði við grjótgarðinn fyrir utan höfnina á Rifi snemma í morgun.

Rétt um fjögur leitið í nótt barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarkall á rás 16 frá fiskibát sem var á leið á miðin frá Rifi. Talsverð þoka var á þessum slóðum í nótt og hafði báturinn siglt upp í grjótgarð utan við höfnina á Rifi. Ekki var nema um klukkustund liðin frá því leit að öðrum fiskibát á Breiðafirði hafði verið hætt og áhöfnin á Björgu, björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi, rétt búin að ganga frá skipinu og því fljót að bregðast við þessu öðru útkalli næturinnar, þegar það barst. Báturinn sem leitað hafði verið að var kominn til hafnar en skipverjanum hafði láðst að tilkynna það.

Þegar Björg kom að strandstað var henni siglt alveg upp að bátnum þar sem hann lá utan í garðinum og þannig var hægt að bjarga skipverjanum um borð. Farið var með hann í land þar sem hann fór svo til skoðunar á heilsugæslunni.

Björg fór svo aftur að bátnum, sem og minni björgunarbátur Lífsbjargar, björgunarsveitarinnar á Rifi, þar sem hafist var handa við verðmætabjörgun, en talsvert af lausamunum úr bátnum var á floti í sjónum allt um kring. Báturinn var þá í raun hálf sokkinn þar sem hann lá utan í garðinum.

Lokið var við að hreinsa til á strandstað og báturinn skilinn eftir á garðinum nú á sjöunda tímanum í morgun.