Grásleppuvertíðin hófst 20. mars og eftir 58 veiðidaga höfðu 135 bátar komið með 3.287 tonn í land af grásleppu og 32 tonn af hrognum. Þetta eru heldur færri bátar og mun minni afli en í fyrra, en þá höfðu 152 bátar landað nærri 6.000 tonnum.

Fækkunin skrifast að mestu á erfiðar aðstæður á markaði og lág verð, að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda.

„Árin 2019 og 2020 voru verðin prýðileg, en svo duttu þau niður í fyrra og það hefur ekki tekist að hækka þau þannig að ásættanlegt sé, þótt vissulega séu þau hærri en þá,“ segir Örn.

Á markaði hefur verðið verið að meðaltali 169 krónur fyrir kílóið af grásleppu, en fyrir hrognin hafa verið að 739 krónur. Þetta eru allt hærri verð en í fyrra en magnið er minna.

„Við ætlum að vona að þetta ár verði til þess að koma jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar og staðan á næsta ári verði betri.“

Þegar vertíðin hófst voru til miklar birgðir af grásleppu frá síðasta ári. Kínverski markaðurinn fyrir hveljuna er enn lokaður en engu að síður hefur gengið þokkalega að selja það sem veitt hefur verið.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Fönix aflahæstur

Örn segir að nú þegar hafi saxast á þær birgðir sem safnast höfðu upp hjá kaupendum. Auk þess líti út fyrir að á Grænlandi verði líka minni veiði en í fyrra, en Ísland og Grænland eru með yfir 90% af allri grásleppuveiði í heiminum.

Fréttir bárust af því að grænlenskir sjómenn hafi í byrjun vertíðar verið ósáttir við verð og annað og héldu ekki strax til veiða.

„Jafnframt var ágreiningur við Royal Greenland þar sem hömlur voru á því magni sem það var tilbúið að taka á móti,“ segir Örn. „Vegna þessa hófst vertíðin á Grænlandi ekki fyrr en 18. apríl, í stað 1. apríl eins og venja er.“

Aflahæstur grásleppubáta það sem af er vertíðinni er Fönix BA á Patreksfirði, sem landaði 10,4 tonnum þann 27. apríl og er það stærsti róður vertíðarinnar. Fönix er nú kominn með yfir 70 tonn af grásleppu en skipstjórinn Hafþór Jónsson man varla eftir öðru eins moki og á þessari vertíð. Hafþór hóf eigin útgerð árið 1993 og hefur varla misst úr vertíð síðan, að því er fram kemur á vef LS.

Næstkomandi föstudag verður svo opnað fyrir veiðar í inannverðum Breiðafirði. Örn telur að álíka margir haldi þar til veiða eins og í fyrra, eða um 20 bátar.

Þarinn hrellir

Strandveiðar hófust 2. maí, en Landssambandið hefur greint frá því að á fyrstu tveimur vikum vertíðarinnar hafi leiðindaveður hamlað strandveiðum. Örn segir ótíðina vissulega líka hafa haft áhrif á grásleppuveiðar, en áhrifin séu þó mun minni vegna þess hve grásleppan er nálægt landi.

„Netin eru svo nálægt landi og í skjóli á innfjörðum þannig að oft komast þeir frekar kannski í grásleppuna.“

Sjógangurinn og hvassviðrið getur samt heldur betur hrellt grásleppusjómenn vegna þess að þarinn kemur í netin, og eins og sjá má á forsíðumynd blaðsins.

„Jú, ef það er ágjöf á netin þá fyllist þetta allt af þaraógeði og ekkert að gera nema draga þetta í land og hreinsa þetta og leggja svo aftur,“ segir Örn.

Mynd/Þorgeir Baldursson
Mynd/Þorgeir Baldursson