Fyrirtækið Seachill í Bretlandi, sem er í eigu Icelandic Group, setti fyrir tveimur árum á markað vörulínu undir heitinu ,,Saucy Fish“ sem náð hefur ótrúlegum vinsældum. Um er að ræða pakkningar með ferskum fiskbitum með sósu sem tilbúnir eru til eldunar. Salan á þessu ári úr út búð er talin munu nema rösklega 9 milljörðum íslenskra króna.
,,Saucy Fish er orðið stærsta vörumerkið fyrir ferskan fisk í Bretlandi í dag,“ segir Lárus Ásgeirsson forstjóri Icelandic Group í viðtali í nýútkomnu Tímariti Fiskifrétta. ,, Boðið er upp á Saucy Fish í öllum verslunum helstu verslanakeðjanna í Bretlandi. Í tímaritinu The Grossist, sem er helsta matvælatímaritið þar í landi, var Saucy Fish valið eitt af áhugaverðustu vörumerkjunum sem fram hafa komið frá árinu 2010 og til dagsins í dag. Svo góðar hafa viðtökurnar verið að við sjáum alla möguleika á að fara með þetta vörumerki út fyrir Bretland og markaðssetja það víðar. Meðal annars erum við með tvær stórar auglýsingaherferðir um Saucy Fish í bresku sjónvarpi á þessu ári.“
Sjá viðtal við Lárus um starfsemi Icelandic Group í Tímariti Fiskifrétta 2012.