Fiskréttur frá The Saucy Fish Co hefur unnið til fyrstu verðlauna í flokki heilnæms fæðis sem virt heilsutímarit veitir. Frá þessu er greint á vef Fishupdate.

The Saucy Fish Co er sem kunnugt er í eigu Icelandic. Rétturinn sem fékk verðlaunin er lax með chili, lime og engifersósu. Hann þótti skara framúr vegna næringargildis og bragðgæða. Í hverjum skammti er ríkulegt af Omega-3 og ekki fleiri kalóríur en 195.

Þetta er í annað sinn sem Saucy Fish-réttur er verðlaunaður. Á síðasta ári fékk Saucy-Fish verðlaun fyrir að vera besti skyndirétturinn.