Engar vísbendingar um að sandsílastofninn sunnan- og vestanlands sé að rétta úr kútnum, aðþví er fram kemur í bráðbirgðaniðurstöðum úr sandsílaleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem farinn var í júlí á rannsóknaskipinu Dröfn RE 35.

Farið var á fjögur svæði í Breiðafirði, Faxaflóa, svæðið við Vestmannaeyjar að Vík og svæði út af Ingólfshöfða. Þetta er áttunda árið sem farið er í slíkan leiðangur, en markmiðið er m.a. að meta breytingar í stofnstærð og afla upplýsinga um styrk árganga sandsílis.

Eins og í fyrra fékkst talsvert af seiðum í Faxaflóa, en nú var magnið minna og seiðin smærri. Á öðrum svæðum fékkst minna af seiðum. Við mat á nýliðun í stofninn hefur verið stuðst við fjölda eins árs sandsíla. Á síðasta ári varð nokkuð vart seiða og því eftirvænting að sjá hvernig seiðin mundu skila sér sem eins ár síli sumarið 2013. Í leiðangrinum á Faxaflóa 2012 fékkst mesti fjöldi seiða frá því að athuganir hófust árið 2006, en ekki er að sjá að þau skili sér sem eins ár síli svo nokkru nemi og því ekki að vænta betri nýliðunar í stofninn af árangi 2012. Leiða má að því líkum að seiðin hafi strax lent í miklu afráni frá fiskum eins og makríl, hvölum og sjófuglum þó ekki liggi fyrir nein gögn þar að lútandi. Aðrar mögulegar skýringar á lélegri nýliðun gætu verið lítið æti, óhagstætt hitastig sjávar eða önnur umhverfisáhrif.

Leiðangurinn gefur ekki vísbendingar um að sandsílastofninn sunnan- og vestanlands sé að rétta úr kútnum, en til að það gerist verður nýliðun sandsílis að vera góð, sambærileg eða betri en árið 2007, nokkur ár í röð.

Það voru þeir Valur Bogason og Kristján Lilliendahl sem önnuðust þessar rannsóknir, en skipstjórn var í höndum Gunnar Jóhannssonar í fyrri hluta og Ásgeirs Guðbjartssonar í seinni hluta leiðangursins.