Eftir að framsal aflaheimilda var heimilað í Danmörku árið 2005 hefur kvóti einstakra skipa aukist mikið og arðsemi þeirra sömuleiðis. Dæmi um skip sem notið hefur góðs af breytingunni er uppsjávarskipið Gitte Henning (nú Beitir NK) en skipið fiskaði yfir 50.000 tonn á síðasta ári, þar af 20.600 tonn af síld og 9.200 tonn af makríl auk sandsílis og brislings.
Þetta kemur fram á norska vefnum Kystmagasinet. Þar segir ennfremur að tekjur útgerðarinnar hafi numið 136,5 milljónum DKK árið 2014, sem er jafnvirði tæpra 2,6 milljarða ISK á núverandi gengi. Hagnaður fyrir skatt nam jafnvirði 600 milljóna ISK.
Uppsjávarskipið Ruth veiddi 43.700 tonn á síðasta ári. Tekjur útgerðarinnar árið 2014 námu tæplega 152 milljónum DKK eða sem svarar tæplega 2.868 milljónum ISK. Hagnaður fyrir skatt nam 747 milljónum ISK.
Til samanburðar má nefna að tvö íslensk uppsjávarskip slógu dönsku skipin út í aflaverðmæti á árinu 2014. Vilhelm Þorsteinsson EA skilaði 3,6 milljörðum og Aðalsteinn Jónsson SU 2,9 milljörðum.