Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brims, segir að þótt samtal milli stjórnvalda og sjávarútvegsins hér á landi hafi í gegn um tíðina verið innihaldsríkt og lifandi sé öldin önnur í dag.
„Samtal á milli Alþingis og starfsfólks sjávarútvegsráðuneytisins við fólk í sjávarútvegi, meðal annars um breytingar á lögum eða útfærslur á nýjum lögum og reglugerðum er horfið,“ segir Guðmundur í ávarpi sínu í nýútkominn árs- og sjálfbærniskýrslu Brims fyrir árið 2024.
„Það er von mín að okkur takist að eiga samtal við stjórnvöld um leiðir til þess og að umtalið um sjávarútveg í íslensku samfélagi verði um framtíð en ekki fortíð,“ segir Guðmundur einnig.
Ávarp forstjórans er svohljóðandi:
„Í meira en öld hefur sjávarútvegur verið burðarás í íslensku atvinnulífi. Allt frá vélvæðingu atvinnuhátta og myndun þorpa úti á landi hefur sjósókn og fiskvinnsla slegið taktinn í athafnalífi þjóðarinnar. Ríkt hefur skilningur á mikilvægi greinarinnar og á því að saman fer hagur sjávarútvegs og þjóðar enda hefur venjulegt fólk fundið á eigin skinni að þegar aflabrögð bresta og illa árar þá harðnar fljótt á dalnum á heimilum landsmanna.
Í gegnum tíðina hafa flestir viljað veg greinarinnar sem mestan þó svo að deilt hafi verið um leiðir og lausnir. Kjörnir fulltrúar almennings við stjórn þjóðarskútunnar lögðu sig fram við að skilja grundvöll veiða, vinnslu og sölu, enda mátti enginn hlekkur vera öðrum veikari í keðju verðmætasköpunarinnar.
Ákvarðanir miðuðu að eflingu greinarinnar og uppbyggingu hennar til lengri tíma. Fólk úr öllum pólitískum flokkum komu að uppbyggingu útgerða og fiskvinnslu víða um land og átti þátt í að móta öflug fyrirtæki í Reykjavík, á Vesturlandi, Akureyri, Norðfirði, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Suðurnesjum og víðar. Umræða um sjósókn, aflabrögð og stjórnun fiskveiða var kraftmikil og byggði á þekkingu og reynslu. Samtalið á milli stjórnvalda og greinarinnar var innihaldsríkt og lifandi. Í húfi var atvinna fólks og afkoma.
Samtal hefur dottið niður
En nú er öldin önnur. Skjótt hafa veður skipast í lofti. Skautun hefur orðið á undanförnum árum. Stjórnvöld hafa fjarlægst greinina og svo virðist sem þau forðist eða takmarki samskipti og samtal við greinina um málefni hennar. Samtal á milli stjórnvalda og okkar í greininni um framtíðarsýn og eflingu sjávarútvegs hefur dottið niður. Samtal á milli Alþingis og starfsfólks sjávarútvegsráðuneytisins við fólk í sjávarútvegi, m.a. um breytingar á lögum eða útfærslur á nýjum lögum og reglugerðum er horfið. Það er óheppilegt því mikilvægt er að reynsla og þekking á undirstöðum greinarinnar endurspegli ný lög og nýjar reglur. Þá hefur samráð um stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum einnig dottið niður, sem er áhyggjuefni.
Íslenska fiskveiðistjórnunin byggir á Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er alþjóðlegur samningur um réttindi og skyldur þeirra sem nýta auðlindir sjávar. Ísland hefur verið aðili að þessum samningi frá upphafi eða í meira en 40 ár. Hafréttarsáttmálinn leggur áherslu á vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna að teknu tilliti til umhverfis- og hagrænna þátta, eins og nánar er útfært í siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum frá 1995. Þannig eiga stjórnvöld í hverju ríki að vinna með atvinnugreininni og hagaðilum að langtíma nýtingastefnu fiskistofna í sinni lögsögu.
Hafrannsóknarstofnun er einn hagaðila og er undirstofnun stjórnvalda og þar með ráðherra. Á síðasta áratug hefur ráðherra sjávarútvegs æ oftar ákveðið að fara að mestu að tilmælum sinnar undirstofnunar varðandi nýtingu fiskistofna en ekki átt samtal við aðra hagaðila eða tekið tillit til annarra sjónarmiða. Síður hefur verið hlustað á eða haft samstarf við forystufólk sjávarútvegsfyrirtækjanna eða skipstjóra fiskiskipanna um þessar mikilvægu ákvarðanir. Þessi þróun er ekki í samræmi við siðareglur FAO um ábyrgð í fiskimálum og er að mati okkar í Brimi áhyggjuefni fyrir íslenska þjóð.
Þó svo að okkur í sjávarútvegi finnist skorta upp á samtalið, þá er ekki það sama að segja um umtalið. Það vantar ekki. Oft finnst okkur að sérfræðingarnir, álitsgjafarnir, embættisog fjölmiðlamennirnir og pólitíkusarnir tali meira um okkur en við okkur. Þá finnst okkur gjarnan að umræðan á opinberum vettvangi beri þess merki. Löngu úreltar fullyrðingar eru endurteknar á meðan innsæi og þekkingu skortir á umhverfi þessarar hátækniframleiðslugreinar eins og hún er í dag. Sjaldnast er dregið fram að greinin heldur uppi atvinnulífi á landsbyggðinni og berst fyrir afkomu sinni upp á hvern einasta dag á alþjóðlegum mörkuðum og þá oft í kappi við ríkisstyrkta keppinauta. Í umræðunni hafa orðið til hugmyndir um að takmarka samstarf íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, sem hafa í áratugi sinnt sölustarfi sameiginlega um allan heim, og er til stuðnings vísað í samkeppnislög sem eiga að vernda íslenska neytendur. Mest er talað um hvernig hægt sé að ná meiri fjármunum út úr greininni í stað þess að efla hana og styrkja þannig að hún geti áfram verið sá burðarás í atvinnulífi á landinu eins og verið hefur.
Sjávarútvegur sem fjárfestingakostur?
Sú staðreynd að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi er veik í dag þegar horft er til ávöxtunar á bókfært eigið fé, sem viðskiptalíf um allan heim horfir til, virðist ekki breyta því almenna viðhorfi hér á landi sem birtist í nær allri umræðu um sjávarútveg að greinin sé takmarkalítil og fyrirhafnarlaus uppspretta skatta og fjármuna sem nýta megi í allt annað en framfarir í greininni. Í dag er svo komið að rekstrarumhverfið og framtíðarhorfur eru þannig að bæði stofnanafjárfestar og almennir fjárfestar sýna sjávarútvegsfyrirtækjum sífellt minni áhuga enda ávöxtun meiri í rekstri fasteigna- og verslunarfélaga eða fjármálafyrirtækja.
Þrátt fyrir að fjárfestar sýni sjávarútvegsfyrirtækjum lítinn áhuga telja ný stjórnvöld sig vita betur og boða frekari sérskatta á greinina. Ég vona að stjórnvöld taki ákalli greinarinnar um aukið samtal þó ekki væri til annars en að auka fyrirsjáanleika og rekstraröryggi. Það er atvinnugreininni og samfélaginu öllu til heilla. Um það verður ekki deilt.
Afkoman ekki góð en rekstur á traustum grunni
Við í Brimi erum vön ágjöf og siglum okkar skipum í höfn í öllum veðrum. Það sást vel á árinu 2024 en þá var rekstur traustur þó svo að ytri aðstæður hafi á köflum verið mótdrægar. Engar heimildir voru gefnar út á árinu til veiða á loðnu og lengst af ársins ekki heldur á djúpkarfa. Þá hömluðu íslensk stjórnvöld, ein stjórnvalda við Norður Atlantshaf, íslenskum útgerðum að nýta sínar veiðiheimildir í þorski í rússneskri lögsögu í Barentshafi. Veiðar á kolmunna gengu ágætlega en veiðar voru dræmar á makríl. Botnfiskafli togara jókst á milli ára og munaði þar um að frystitogarinn Þerney var keyptur á miðju ári. Botnfiskvinnslur í Norðurgarði og í Hafnarfirði gengu vel og þá gekk vinnsla uppsjávarafurða vel og skilaði hún miklum gæðum. Þrátt fyrir ólgu á mörkuðum ytra og óvissu var verð á botnfiski viðunandi og verð á frystum makríl og síld hækkaði og sala gekk vel. Eins var verð á mjöli og lýsi mjög gott þrátt fyrir að verð á lýsi hafi lækkað á seinni hluta ársins.
Rekstur félagsins er traustur. Starfsfólk fyrirtækisins sækir þann afla sem er í boði og vinnur hann með hagfelldum hætti og þá hefur félaginu orðið vel ágengt við að koma afurðum sínum á sífellt verðmætari markaði. Vegna minni afla minnkuðu tekjur félagsins á árinu og rekstrarhagnaður sömuleiðis. Afkoman var ekki ásættanleg í ljósi þeirra fjármuna sem bundnir eru í rekstrinum. Ánægjulegt er að sjá að fjárfestingar Brims á undanförnum árum í dóttur- og hlutdeildarfélögum studdu vel við félagið. Eignastaða félagsins er mjög traust en eignir félagsins námu 143,3 milljörðum króna í árslok og þar af var bókfært eigið fé 70,3 milljarðar króna.
Treystum á auð náttúru og manns
Brim byggir nútíð og framtíð á auði náttúrunnar og mannsins. Félagið hefur unnið markvisst að umhverfis- og samfélagsmálum um árabil. Árið 2021 setti stjórn Brims fram skýr markmið á sviði umhverfismála og árið 2022 var mótuð umhverfis- og loftslagsstefna með verðmætasköpun að markmiði, í sátt við umhverfi og samfélag. Markmið Brims fela í sér 40% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en það var árið 2015 og er þá miðað við þau verðmæti sem starfsemin skapar. Þannig tengjum við umhverfismál og verðmætasköpun með skýrum hætti. Þessu meginmarkmiði náum við í skrefum eins og að minnka olíunotkun hvers skips, skipta út freoni í kælimiðlum, auka hlutfall úrgangs í hringrásarhagkerfinu, bættri stýringu náttúrulegra aðfanga, aukinni kolefnisbindingu og fleira.
Hjá félaginu og dótturfélögum starfa um 630 manns af 24 þjóðernum. Starfsfólkið býr yfir mikilli reynslu og er meðalstarfsaldur um 10 ár. Mikil áhersla er lögð á öryggi og vellíðan starfsfólks. Öryggisstjórnunarkerfi félagsins nær til allra þátta starfseminnar og er sameiginlegt verkefni allra. Brim er fjölmenningarsamfélag og býður félagið meðal annars starfsfólki upp á íslenskukennslu á vinnustað. Mikilvægt er að starfsfólk fái góða þjálfun í íslensku og er sífellt leitað nýrra leiða til árangursríks náms. Brim leggur sömuleiðis áherslu á framúrskarandi hæfni starfsfólks og fjárfestir markvisst í fræðslu og þjálfun þess og hefur félagið stofnsett Brimskólann sem er kjarni starfsþróunar og tæki starfsfólks til þekkingarleitar.
Við Íslandsstrendur er veiddur fiskur og mikilvægt að aðstæður séu með þeim hætti að úr honum séu unnar afurðir sem eru eftirsóttar víða um heim og skapi verðmæti fyrir þjóðarbúið. Það er undir okkur komið. Það gerist aðeins með því að greinin fái að vaxa og dafna en til þess þarf miklar fjárfestingar bæði í mannauði og nýsköpun. Það er von mín að okkur takist að eiga samtal við stjórnvöld um leiðir til þess og að umtalið um sjávarútveg í íslensku samfélagi verði um framtíð en ekki fortíð.“