Samstarf Íslandsstofu og blaðamanna og áhrifavalda í svokölluðu þorskverkefni skiluðu umfjöllunum sem eru metnar á að minnsta kosti 120 þúsund evrur í uppreiknuðu auglýsingavirði.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Fiskifrétta er stefnt að því að yfirfæra markaðsverkefni á vegum Íslandsstofu í Suður-Evrópu á þorsk almennt og þá ekki síst ferskar afurðir. Þá kom fram að Íslandsstofa hefði boðið hingað til lands blaðamönnum og bloggurum frá Spáni, Portúgal og Ítalíu til að kynna sér framleiðslu á íslenskum sjávarafurðum. Íslandsstofa hefur greint þá umfjöllun sem birtist í kjölfarið og lagt mat á þann kostnað sem hefði orðið af því að kaupa auglýsingar í fjölmiðlun til að skapa samsvarandi umfjöllun.

Brotabrot af kostnaði

„Í þorskverkefninu hefur það tíðkast að vinna með blaðamönnum og öðrum áhrifavöldum frá Suður-Evrópu. Við höfum bæði fengið þá í lið með okkur úti á mörkuðum og boðið þeim til Íslands að kynna sér upprunalandið. Árið 2016 skiluðu þessar umfjallanir að minnsta kosti 120 þúsund evrum í uppreiknuðu auglýsingavirði, en það er leitast við að reikna hvað sambærilegar keyptar auglýsingar myndu kosta í sambærilegum miðlum. Síðan bætast við þetta samfélagsmiðlarnir, oft eru þetta aðilar sem eiga sterkan hóp fylgjenda þar. Þannig erum við að ná kynningu sem við gætum ekki náð með hefðbundnum auglýsingaleiðum, fyrir aðeins brotabrot af kostnaðinum,“ segir Kristinn Björnsson hjá Íslandsstofu.

Hann segir að reyndar hafi merkilega fáir bloggarar, matreiðslumenn og ljósmyndarar komið til landsins í tengslum við þorskverkefnið 2016, eða samtals sjö manns, þar af fimm sem komu í lok árs 2015 en umfjöllun þeirra skilaði sér 2016.

Enginn þessara aðila fær greidd laun. Kostnaðurinn felist einungis í flugi og uppihaldi.

„Við getum yfirleitt fengið góð kjör á því. Við skipuleggjum ferðina svo með það fyrir augum að tryggja jákvæða umfjöllun um þorskinn okkar; heimsækjum vinnslur, veitingastaði o.s.frv. Við semjum fyrirfram um ákveðið magn af birtum greinum, færslum á bloggi, samfélagsmiðlum ofl. Inni í þessari tölu, þ.e. 120.000 evrum í umfjöllun, sem er reyndar lágt mat, eru ekki einungis þeir sem komu til Íslands heldur líka þeir sem Íslandsstofa hefur unnið með erlendis,“ segir Kristinn.

Þekkt aðferð

Þetta er þekkt aðferð og íslenska fyrirtækið Ghostlamp hefur sérhæft sig í því að finna áhrifavalda á samfélagsmiðlunum og para þá saman við vörumerki.

„Við veljum fólk sem við viljum vinna með sem prufar og fjallar um vöruna á samfélagsmiðlum. Þannig byggist upp annað samband neytenda við vöruna í gegnum áhrifavald sem fólk lítur upp til. Í kerfi Ghostlamp er núna rúmlega ein og hálf milljón áhrifavalda víða um heiminn. Áhrifavaldar eru þeir sem hafa meira en eitt þúsund fylgjendur sem bregðast á einhvern hátt við því sem áhrifavaldurinn lætur frá sér. Við mælum hve margir aðhafast eitthvað það á sem tengist umfjöllun áhrifavaldsins,“ segir Valgeir Magnússon, stjórnarformaður Ghostlamp.

Innan kerfis Ghostlamp eru áhrifavaldar á mörgum mismunandi sviðum eins og t.d. tísku, bílum, tækni og jafnvel módelsmíði. Greiðsla til áhrifavalds ræðst af því hve oft hann skrifar um tiltekna vöru og því hve margir fylgjendur hans bregðast við skrifum hans á samfélagsmiðlum.

„Það nást fram mikil áhrif á markaðssetningu á vöru fyrir minni pening með því að fá aðra til að tala um vöruna á sínum samfélagsmiðlum. Ef 40 áhrifavaldar fjalla um tiltekna vöru á sama tíma eru í raun í gangi 40 auglýsingar sem allar eru sérsniðnar að markhópnum.“

Valgeir segir að Norðmenn hafi lagt miklar upphæðir í að byggja upp ímynd norska laxins. Þeir fóru í sömu leið og rætt er um hér að ofan.

„Þeir vörðu miklum fjárhæðum í það að fá þekktasta sushi-gerðarmann í Japan til þess að bæta laxi inn í sinn matseðil. Lax var ekki hluti af sushi fyrr en fyrir um það bil 15 árum. Laxinn ferðaðist síðan með sushi réttum meistarans um heiminn og norskur lax varð að heimsþekktu vörumerki.“