„Enginn vafi er á að þessi niðurstaða styrkir stöðu Íslands í komandi samningaviðræðum um hlut Íslands í makrílveiðum,“ segir í frétt á vef sjávarútvegsráðuneytisins um niðurstöður úr sameiginlegum makrílleiðangri Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Grænlendinga.

Hafrannsóknastofnun sendi nýlega frá sér niðurstöður úr makrílleiðangrinum. Þar kemur fram að aldrei hafi mælst meira af makríl í íslenskri efnahagslögsögu. Heildarvísitala makríls á svæðinu sem mælingin náði yfir var metin um 7,7 milljón tonn, þar af voru tæp 2,9 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða rúm 37% af heildarvísitölunni.