Samið hefur verið um smíði á nýjum rækjufrystitogara fyrir Grænlendinga sem bera mun nafnið Regina C. Skipið er hannað af Skipsteknisk í Noregi og verður smíðað í skipasmíðastöðinni Metalships & Docks á Spáni. Togarinn er smíðaður fyrir útgerðina Niisa Trawl í Nuuk.

Skipið verður 80 metra langt og 17 metra breitt og er aðallega hugsað til veiða og vinnslu á rækju en einnig er gert ráð fyrir að það geti stundað veiðar á öðrum tegundum. Íbúðir eru fyrir 32 menn. Áætlað er að togarinn verði tilbúinn til afhendingar í ágúst 2018. Frá þessu er skýrt á vefnum Fiskerforum.dk.

Fyrir jólin var sagt frá afhendingu nýsmíðaðs rækjutogara, Steffen C, til grænlensku útgerðarinnar Sikuaq Trawl. Það skip er 83 metra langt og var smíðað í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi.