Yohei Kitayama, sölustjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í Asíu, segir mikinn gæðamun á makríl sem Íslendingar veiða og þeim sem Norðmenn veiða.
Kitayama hélt erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku. Hann segir Íslendinga auðvitað veiða úr sama makrílstofni og Norðmenn. Sami fiskur en gæðamunurinn mikill. Hann skýrist af mörgum ólíkum þáttum. Fyrst nefnir hann þó til sögunnar veiðitímabilið.
„Makrílvertíðin hefst í júní á Íslandi og stendur fram í ágúst. Í Noregi hefst vertíðin í september og síðustu ár reyndar í ágúst og hún stendur yfirleitt út október.
Hvaða máli skiptir það? Jú, í byrjun vertíðarinnar á Íslandi í júní og út júlí er fituinnihald makríls lágt, eða 10-15%, fitan er undir roðinu og hefur ekki náð inn í holdið. Í ágúst, þegar makríll gengur inn í norska lögsögu er fituinnihald hans yfir 20%. Það sem skiptir þó meginmáli er að er að upp úr miðjum september hefur fitan náð inn í holdið sem gerir fiskinn stinnari og hann er líka löngu hættur að éta. Hann er betri vara og eftir því sækist markaðurinn."
Flottroll - hringnót
Annað sem Kitayama nefnir eru veiðiaðferðir. Íslendingar veiði sinn makríl í troll. 80-90% makrílveiða Norðmanna séu í hringnót. Fiskurinn eigi það til að merjast í trolli en það gerist síður í hringnót. Þá skipti togtími einnig máli. Kitayama minnir á að makríll þéttir sig gjarnan meira í vöður þegar hann gengur inn í norska lögsögu.
Þriðji þáttur
Veiðisvæðið er svo þriðji þátturinn. Það tekur íslensk skip allt að tvo sólarhringa að komast á makrílmiðin austur af landinu, yfirleitt á eða nærri alþjóðlegu hafssvæði, Síldarmugunni.
Þegar makríll gengur inn í norska lögsögu tekur það þarlend skip 12-18 klukkustundir að komast á miðin. Fyrir Íslendinga bjóði þessar miklu fjarlægðar á miðin ekki upp á hagkvæmni nema skipin komi til baka með fullfermi. Að meðaltali séu farmarnir yfir 1.000 tonn hjá íslensku skipunum. Þar sem veiðisvæði Norðmanna er mun nær landi sækja norsku skipin eingöngu að jafnaði 200-300 tonn og að hámarki 500 tonn í hverri veiðiferð. Það tekur því Norðmenn einn dag að ná þessum afla meðan veiðar íslensku skipanna taka 2-3 daga vegna hins mikla magns sem þau þurfa að taka. Þar sem magn norsku skipanna er mun minna tekur vinnsla í landi að jafnaði ekki nema hálfan sólarhring en vinnsla á stórum förmum íslensku skipanna tekur að jafnaði nokkra daga.
Lélegri kæling
Kitayama segir kælikerfi um borð í íslensku og norsku uppsjávarskipunum sambærileg, RSW-tankakerfi. Munurinn er sá að þar sem mun meiri fiskur fer í íslensku skipin en þau norsku sé meiri erfiðleikum bundið að halda jafnri kælingu á aflanum. Því til viðbótar kemur að norsku uppsjávarskipin séu að jafnaði stærri og með meira vélarafli en þau íslensku sem virðist leiða til betri stýringar á hitastigi í kælitönkunum.
Kitayama bendir einnig á ólíkt fyrirkomulag veiða og vinnslu í Noregi og Íslandi. Hans glögga gests auga segir að hér á landi sé um samþættar veiðar og vinnslu að ræða; fiskiskipin séu með öðrum orðum í eigu fyrirtækja sem reki einnig landvinnsluna. Í Noregi séu veiðar og vinnsla aðskilin og allur afli seldur á uppboði. Í því sé innbyggður hvati til bættrar meðferðar á aflanum. Sé aflagæðum norskra uppsjávarskipa ábótavant sé útgerðinni refsað með lægra verði á markaði. Séu uppi áhöld um gæði afurðanna geta norskir kaupendur (vinnslur) fengið að borðinu sjálfstæða matsmenn sem dæma um raunveruleg gæði afurðanna og samið er þá í framhaldi um verðið á grundvelli þess mats.